Ég vissi að það var mar á bakinu á mér eftir floggerinn, en það var þess eðlis að ég lét það ekki stoppa mig við að skella mér í sund. Sem betur fer voru fáir í kvennaklefanum þennan morguninn.

Þegar mér varð hugsað til þess minntist ég högganna: þau urðu þyngri og þyngri eftir því sem á leið, þangað til ég var farin að grípa andann á lofti eftir hvert högg, og smellurinn glumdi hátt um íbúðina. Það var hann sem stoppaði leikinn og sagði hingað og ekki lengra. Hann benti á að ég væri farin að merjast. Á þessu augnarbliki var mér alveg sama og ég hefði viljað eins og fjögur högg í viðbót.... Ég fæ víst ekki alltaf allt sem ég vil. 

Ég er ekki spéhrædd og almennt ekki feimin. Ég hef samt aldrei haft einhverja sýniþörf eða langað að monta mig af minjagripum eftir leik. Það helltist samt yfir mig löngun til að spegla mig og skoða marið þarna í kvennaklefanum. Einhverra hluta vegna skipti staðsetningin töluverðu máli. Ég hef ekki upplifað þetta áður.
Þar sem ég sá engan annan í klefanum á þessu augnarbliki tók ég af skarið. Ég tók handklæðið mitt og fór fyrir framan stóra spegilinn. Þar horfði ég á sjálfa mig nakta í smá stund og skoðaði líkama minn í þessu umhverfi. Svo vatt ég upp á mig og horfði yfir hægri öxlina. Á herðunum og niður eftir bakinu voru agnar smáir rauðir blettir í klösum, en þannig braust marið út. Ef vel var að gáð mátti sjá rák skáhalt niður yfir herðarblaðið. Ég brosti með sjálfri mér, svolítið ánægð með það sem ég sá. Verandi freknótt og með mikið af fæðingarblettum út um allt tæki fólk ekki endilega eftir því að það var eitthvað ekki eins og það átti að vera. Ég vissi samt betur og það breytti öllu. 



Ummæli

Vinsælar færslur