Eftirleikur

Ég sit hérna núna fyrir framan tölvuna, ennþá á náttfötunum enda þarf ég hvergi að vera í dag.

Á sófaborðinu er ennþá poki með klemmum, í hillunni á ganginum eru ennþá kynlíftæki í hleðslu, floggarnarnir og ólarnar liggja í hrúgu á svefnherbergisgólfinu og inni á baði er risa dildó og butplug við vaskinn (hreint að sjálfsögðu). Þetta er allt eftir leiki helgarinnar. 
Það er varla hægt að segja að ég sé í bolnum, þar sem ég er búin að lyfta honum upp að aftan og taka hann yfir höfuðið, til að geta hvílt bakið mitt við kalt sætisbakið á stólnum. Hendurnar eru ennþá í ermunum, og bolurinn rétt hylur brjóstin. 
Mig svíður, eða réttara sagt, þá logsvíður mig í bakið eftir leikinn í gær, og marið á bakinu og rassinum er að brjótast út. Ég er líka með harðsperrur í náranum, og eymsli í höndunum þar sem böndin lágu. Ég er þreytt, mér er illt og ég vorkenni sjálfri mér agalega. Hinsvegar myndi ég ekki vilja skipta við neinn, og þrátt fyrir eymslin þá er ég í skýjunum. Ég veit líka að ég verð ekki fyrr orðin skárri en að mig langar að endurtaka leikinn.

Hvað mig varðar er þetta alveg jafn mikill partur af leiknum og undirbúningurinn. Þannig að leikurinn hvorki byrjar þegar hann byrjar, né endar þegar honum líkur.

Á undan leiknum er undanfari. Það er tilhlökkunin og undirbúningur. Það er þegar ég tek til dótið sem á að nota og sturtan sem ég fer sérstaklega í fyrir leik, þar sem ég raka það sem á að raka og snyrti það sem á að snyrta. Það eru dagdraumarnir tengdir leiknum og fiðrildin í maganum sem koma þegar það er orðið mjög stutt í leikinn.

Eftir leikinn er það tíminn sem fer í að komast niður á jörðina aftur og jafna sig. Það er að leggjast þreytt upp í rúm og finna hvernig öxlin eða bakið kvartar, það er að horfa á förin í speglinum og fylgjast með marinu þegar það brýst út og hjaðnar svo á einhverjum dögum, jafnvel vikum, það er að finna harðsperrurnar og eymslin, og vita hvaðan þau koma. Það er eiginlega ekki fyrr en síðasti marbletturinn er alveg horfinn og ekkert minnir mann lengur á leikinn, að leikurinn er sannarlega búinn.

Hjá mér er eftirleikurinn yfirleitt stærsti parturinn af leiknum.

Ummæli

Vinsælar færslur