Drauguð - aftur!

Ég sló þessu orði inn í google, til að athuga hvort einhver hafi komið með betra íslenskt orð yfir ghosting-fyrirbærið. Fyrsta niðurstaðan var póstur inni í blogginu mínu. Svo virðist því vera að ég hafi verið drauguð áður og tekið það inn á mig. 

Það gerðist nefnilega aftur. Venjulega tek ég þetta ekki inn á mig. En málið er að þetta er endurtekin saga hjá mér og þessum aðila.

Alltaf á einhverra mánaða fresti dúkkar upp þessi Íslendingur á ircinu, og við spjöllum saman. Hann hefur einstakt lag á því að ýta á alla réttu hnappana hjá mér. Hann er óhræddur við að kafa djúpt ofaní hlutina og spjallið út af fyrir sig er alltaf skemmtilegt. Á einhvern undraverðan máta laðar hann alltaf fram undirgefnu hliðina í mér. Ég hef staðið sjálfa mig að því að spyrna fótum við því, en án árangurs. 

Hann sem sagt dúkkaði upp aftur. Allt fór á sömu leið, nema við tókum þetta skrefinu lengra og ég leyfði fantasíunni að leka inn í raunheima. Spjallið færðist líka að hluta til inn á fetlife, sem var nýtt. Það breytti því samt ekki að eftir nokkra daga gufaði hann upp. Enn eina ferðina. 

Í sálfræðinni er okkur kennt að ekkert spáir fyrir um hegðun manna betur en fyrri hegðun þeirra. Þetta ætti því ekki að koma mér neitt á óvart. 

Ummæli

Vinsælar færslur