Samningaviðræður


Í kink-samfélaginu er alltaf verið að tala um "að semja", (e. negotiation).
Í því felst að báðir, eða allir aðilar sem koma að leik, leikfélagasambandi, eða ds-sambandi, leggja fram sínar væntingar, langanir og mörk. Hvað þarf að vera til staðar svo að einstaklingurinn blómstri? Hvaða þarfir hefur hann? Hvaða takmarkanir býr hann við? Hvað má gera? Hvað má ekki gera? Hvaða mörk má kanna? Og hvaða mörk má alls ekkert snerta á? Hvaða væntingar eru gerðar til hins eða hinna aðilanna? Hvaða væntingar eru gerðar til mín?

Ef maður vill taka þetta lengra þá ætti partur af samningnum að vera; hvernig verður þetta þegar við hættum saman? Hver fær hvaða dót? Er eitthvað dót sem á að henda eða eyðileggja? Oft fá einstaka munir mikla merkingu í okkar huga, og tengjast ákveðnum aðila eða ákveðnum athöfnum. Ég hef t.a.m. fengið leikföng í arf eftir leikfélagasamband, þar sem hinn aðilinn gat ekki hugsað sér að nota þau með einhverjum öðrum.

Ég heyrði í gærkvöldi eina góða spurningu í sambandi við svona samningaviðræður, og hún vakti mig til umhugsunar. Í framtíðinni, jafnvel þegar sambandinu er lokið, og við lítum til baka; Hvað viljum við sjá? Hvaða upplifun og lærdóm viljum við fá út úr sambandinu?
Ég hef aldrei horft á þetta með þessum augum, og sannarlega breytir þetta aðeins sýn manns á sambandið í heild sinni. Hvað vil ég sjá þegar ég horfi til baka? Hvernig vil ég sjá sjálfa mig í baksýnisspeglinum?

Þar sem ég er einmitt í þessum hugleiðingum þessa dagana, þá langar mig að svara þessu.

-Ég vil sjá að ég hafi vaxið í hlutverkinu, að sambandið hafi þróast og við gengið lengra en ég hef gert hingað til.
-Ég vil sjá að ég hafi verið heiðarleg, sagt mína hlið eða skoðun og að ég hafi ekki dregið neitt undan, jafnvel þó svo það hafi verið erfitt.
-Ég vil sjá að ég hafi fengið mínum þörfum og löngunum mætt, og ég á sama hátt hafi lagt mig fram við að mæta hans þörfum og löngunum.
-Ég vil að sjá að við höfum lagt vinnuna á okkur, að við höfum lært inn á hvert annað og gert það sem þurfti til að viðhalda spennunni og nándinni.
-Ég vil sjá röð ævintýra og upplifana sem við gerðum saman.
-Ég vil sjá minningar sem einkennast af húmor, glettni og góðlátlegri stríðni.
-Ég vil sjá að ég hafi virkilega notið þess sem fram fór.

Hvað vilt þú sjá í baksýnisspeglinum?

Ummæli

Vinsælar færslur