Meira af fortíðardraugum

Ég held að allir beri fortíðina með sér. Við mótumst af því sem við göngum í gegnum og án þess værum við ekki þau sem við erum. Sum lífsreynslan er góð og skilar okkur sterkari, kraftmeiri og með aukna trú á eigin getu. Önnur lífsreynsla er minna góð og verður til þess að við drögum okkur inn í skelina, förum okkur hægar og verðum varkárari. Verulega slæm lífreynsla getur svo valdið því að við forðumst ákveðna staði, fólk og athafnir. Engu að síður er öll lífsreynsla eitthvað sem við lærum af.
Besti lærdómurinn sem hægt er að draga er sá að hvað sem á dynur, þá komumst við í gegnum það á einn eða annan hátt. Orðatiltækið „þetta líður hjá“ á við í öllum aðstæðum, góðum og slæmum. Það er nefnilega aðeins tvennt í þessum heimi sem við getum verið fullviss um. Við munum öll deyja, og lífið er breytilegt.

Ég var að keyra heim í gær og leyfði huganum að reika. Jafnan vill hann reika inn á BDSM sviðið, og þarna sat ég með hausinn fullan af vangaveltum. Það var eitthvað sem hvarflaði að mér sem ég man ekki nákvæmlega hvað var. Þetta var eitthvað sem ég átti erfitt með og það kallaði fram ákveðið óöryggi hjá mér.

Ég hugsaði eitthvað á þá leið að réttast væri að ræða þetta við leikfélagann, en hann myndi nú örugglega ekki vilja hlusta á rausið í mér svo ég ætti að láta það vera. Ég myndi finna út úr þessu sjálf, díla við þetta sjálf og í stóra samhenginu skipti þetta ekki öllu máli. Óöryggið sem þetta atriði keyrði áfram myndi eflaust líka líða hjá, á endanum. Á sama tíma áttaði ég mig á því að þarna voru fortíðardraugarnir að hrella mig. Gömul samskipti úr löngu liðnu sambandi sem gerðu það að verkum að ég veigraði mér við að ræða þetta við nýja leikfélagann.

Skilaboðin sem ég fékk þá voru yfirleitt að ég væri að ofhugsa hlutina og gera úlfalda úr mýflugu. Viðkomandi aðili nennti ekki að taka spjallið og ég leið fyrir það. Ég lærði að bera óöryggi mitt í hljóði, sem gerði það að verkum að stundum óx það og dafnaði. Til að íþyngja þáverandi leikfélaga ekki, setti ég upp fallega grímu sem tók öllu með bros á vör. Furðulegt nokk þá gekk þetta ágætlega í góðan tíma. Ég lærði hvað hann var tilbúinn að ræða og hvað ekki og hegðaði mér eftir því. Þess á milli tókst ég á við mínar eigin vangaveltur og óöryggi sjálf. Þegar ég horfi til baka þá var ég aldrei fyllilega mett í því sambandi. Ég fékk mína útrás fyrir kinkið og mínum þörfum var mætt að einhverju leiti, en alls ekki að öllu leiti og núna vil ég meira.

Þegar ég sat þarna í bílnum áttaði ég mig á því að ég var að yfirfæra hegðun og hugsanir eldri leikfélaga á þann nýja. Ég var ekki að gefa nýja leikfélaganum séns til að vera sín eigin manneskja, með eigin hugsanir sem eru jafnvel gjörólíkar þessa eldri leikfélaga. Ég var að ákveða fyrir hann hvað hann vildi heyra og hvað hann var tilbúinn til að ræða og hvað ekki, byggt á þessu gamla sambandi sem var löngu lokið.

Ég fann að ég varð að kyngja óttanum, opna mig varðandi mína vankannta og óöryggi og sjá hvað setur. Mig langaði ekki að sýna honum að ég væri að burðast með eitthvað sem skipti aðra jafnvel engu máli. Mig langaði ekki að fá ræðuna aftur um að ég geri úlfalda úr mýflugu og ofhugsi allan fjandann.
Mig langaði heldur ekki að fara í sama farið aftur þar sem ég deili sumu en held öðru fyrir mig, af ótta við að fá einhver ákveðin viðbrögð. Ég var einfaldlega ekki til í það. Ef ég vildi eitthvað annað en það sem var forðum daga, þá þurfti ég líka að gefa honum séns til að sýna mér hvernig hann tæklar þessa hluti, á sinn eigin hátt. Til þess að gefa honum þann séns þá þurfti ég líka að taka skrefið og opna mig um þessa hluti, sýna honum óöryggi mitt og vera tilbúin að taka því sem kæmi.

Það sagði enginn að þetta væri auðvelt. 

Ég sá einu sinni viðtal í sjónvarpinu við mann. Hann sagði einfaldlega: Við þurfum bara að gera það sem við þurfum að gera til að okkur líði betur. Ég lifi svolítið eftir þessu, og oftast líður manni betur við að leita svara strax en að velkjast í vafa og óvissu. Ekki satt?

Ummæli

Vinsælar færslur