Af flottum karlmönnum

Ég var að skrifast á við fyrrum leikfélaga minn á einni af útihátíðum landsins um verslunarmannahelgina. 

Ég sagði honum eins og satt var, að ég væri að skoða fólkið á hátíðinni. Aðallega karlpeninginn. Það virtist ekkert koma honum á óvart og hann spurði mig hvort ég hafi séð einhverja flotta, og svo hvað það væri sem prýddi þá flottustu. 

Ég hugsaði málið í smástund og komst að því að ég var ekki að horfa á útlitið á þeim þannig lagað. Þeir sem heilluðu mig hvað mest voru þeir sem voru vel hirtir, hreinir, með nýlega klippingu, í hreinum og snyrtilegum fötum sem fóru þeim vel. Þegar ég sá svoleiðis fjölskyldufeður þá velti ég því samt fyrir mér hvort þeir sæu um þetta sjálfir, eða hvort konan passaði upp á þessa hluti. Síðan spáði ég mikið í samskiptum þeirra við annað fólk, voru þeir sjálfsöruggir, hjálpsamir og virtust þeir hafa frumkvæði. Ég spáði ekki í eiginlegt útlit þeirra. Hæð eða þyngd skipti ekki öllu máli. Augnlitur, andlitsfall eða annað skipti litlu sem engu máli. Jújú, það er sannarlega kostur ef maðurinn er hávaxinn, með kyssulegar varir, brún augu og djúpa rödd. En ef að hitt vantar hefur það ekkert að segja.  

Ég sá einn sem ég hefði algjörlega verið til í að taka með mér heim. Hann tikkaði í öll réttu boxin. Hann var ekki hávaxinn, með blá augu og ekkert svakalega kyssulegar varir. En hann gekk um með bros á vör og spjallaði við mann og annan. Hann rétti hjálparhönd þegar einhverjum vantaði og var alltaf tilbúinn til að leggja sitt af mörkum. Hann var þarna með fjölskyldunni sinni. Hann sinnti börnunum sínum af alúð og tók virkan þátt í dagskránni og hann tók þátt í barnadagskránni með börnunum sínum. Hann var meira að segja sætur!! Konan hans virtist líka vera indælis manneskja, og þau virtust vera samstillt hjón, svo ég lét mig bara dreyma um hann í fjarska. 

Ef ég hefði ekki fengið þessa spurningu frá fyrrum leikfélaga mínum þá hefði ég ekki áttað mig á því hvernig karla-áttavitinn minn virkar þessa dagana. Hann færist meira og meira í áttina að hegðun manna en útliti. Ég myndi allan daginn velja samviskusama gaurinn sem hefur frumkvæði fram yfir heita gaurinn. 

Hann verður samt líka að vera kinky sko! 


Ummæli

Vinsælar færslur