Tvö ár

Ég held að ég hafi ekki formlega tilkynnt það hérna á blogginu, en við G erum hætt saman. Það eru um það bil tvö ár síðan. Við vorum saman í ein 14 ár og eigum saman tvö frábær börn. Við brölluðum heilmargt og þroskuðumst mikið á þessum tíma. Hann er dásamlegur maður og hans sterkasti eiginleiki er hversu skilningsríkur hann er. Meira að segja í gegnum sambandsslitin þá sýndi hann mér skilning og veitti mér stuðning og aðstoð ef ég þurfti á því að halda. 

Ég er ennþá að fóta mig í heiminum sem einhleyp kona með tvö börn. Það getur verið alveg hrikalega erfitt ef satt best skal segja. Ég þarf virkilega að hafa fyrir því að halda lífinu í góðu jafnvægi, þannig að allt fái sitt pláss, það getur verið snúið að púsla saman heimili og börnum, tveim störfum, einu fyrirtæki, kinkinu og öðrum áhugamálunum með góðu móti. Þannig að yfirleitt situr eitthvað eftir á hakanum, og oftast er það líkamsræktin.

Glöggir lesendur hafa kannski tekið eftir því að leikfélaginn sem ég hef verið að hitta breyttist í "domminn minn" í síðustu færslu. Ég er ákaflega lánsöm að hafa sagt já þegar hann stakk upp á hittingi einhverntíman fyrir jól, því það leiddi af sér allskonar skemmtilegheit. 

Þessa dagana er ég mett í lífinu. Ég á æðisleg börn, góða vini, fallegt heimili, er í draumastarfinu mínu, fyrirtækið mitt vex og dafnar hægt og rólega, og ég fæ meira kink og kynlíf en ég hef fengið í mörg ár. Ég er gríðarlega þakklát. Ég er þakklát fyrir reynsluna, þroskann, tækifærin sem ég hef fengið og fólkið mitt. 

Ég ætla ekki að segja að ég hlakki til þess sem koma skal, einfaldlega því ég hef það gott eins og staðan er akkúrat núna, og ætla að njóta þess. 

Ummæli

Vinsælar færslur