Ó, mamma gef mér rós í hárið á mér

því tveir litlir strákar eru skotnir í mér...


Drauma karlmaður flestra kvenna er umhyggjusamur, nærgætinn, jafningi þeirra, félagi og trúnaðarvinur, opinn og deilir upplifunum sínum og tilfinningum. Hann er jafnframt með sjálfan sig á hreinu, þorir að taka frumkvæði og er tilbúinn til að axla ábyrgð (okkur vantar ekki enn eitt barnið til að hugsa um). Hann hefur sömu sýn á heiminn, og lifir eftir sömu hugmyndafræði. Hann er einhver sem hægt er að hlægja með og gráta. Hann er góður og hugmyndaríkur elskhugi. Það er sannarlega ekki verra ef hann hefur metnað og ástríðu fyrir vinnunni sinni, hefur eigið félagslíf og er fjárhagslega sjálfstæður.

Sumt af þessu er kannski bara á mínum óskalista en hvað um það.
Já, svona væri algjörlega drauma karlmaðurinn minn. Í viðbót við þetta væri hann myndarlegur, músíkalskur að einhverju leiti, og þræl kinky.

Ég er farin að sjá að kannski erum við að ætlast til of mikils af mönnum þegar við vegum þá og metum út frá þessum staðli. Eða hvað? (Mig langar ekkert að gefa afslátt sko).

Ég heyrði það í podkasti fyrir nokkru síðan að þegar kemur að samböndum og hamingju í sambandinu þá er vægi einstaklingsins, sem sagt hins aðilans bara um 5% (það var að minnsta kosti frekar lágt). Þannig að það skiptir ekki endilega máli hvort ég er í sambandi með Jóni eða Sverri upp á hamingju sambansins að gera.
Hvað skiptir þá máli? Það sem skiptir öllu máli er vilji okkar til að vera í sambandinu og að við séum tilbúin að leggja það á okkur sem þarf til að sambandið blómstri. Þá er sambandið orðið að einskonar einingu sem stendur utan við aðilana sem mynda það. Það eitt að vera í sambandi getur veitt okkur ákveðið öryggi og uppfyllt einhverjar þarfir. Svo er það hvernig við tengjum við hlutverkið að vera maki. Enn fremur skiptir miklu máli að það ríki traust, skilningur og virðing í sambandinu.

Hvort sem það er Jón eða Sverrir, á meðan hann kemur heim þegar hann segist ætla að gera það, hefur skoðun og leggur sitt til jólahaldsins, stendur við stóru orðin, og nennir að kúra, þá er ég góð.

Eða hvað?

Ummæli

Vinsælar færslur