Leikpartý

Ég fór í leikpartý í gær. Þegar ég mætti á svæðið var verið að lemja eina á krossi, önnur stelpa sat inni í búri og tveir gengu um með hundagrímu. Aðrir röltu um svæðið, stóðu og spjölluðu eða sátu og fylgdust með því sem fram fór. Flestir voru klæddir í svart og margir í einhverskonar fetish-klæðnaði. Glansandi latex, pólíester og leður var áberandi. Sokkabönd, stutt pils og svimandi háir hælar sáust líka. 

Sjálf var ég uppáklædd og naut mín í tætlur. Það er ekki alla daga sem maður getur dregið gengið í þröngu korsetti sem ýkir ávalar línurnar, stuttu pilsi (styttra en ég hef hingað til viljað fara í), og gegnsærri blússu. Mér fannst ég bæði sæt og sexý og það ýtti undir alla upplifun þetta kvöldið. 

Ég settist við borð og spjallaði við nokkra sem ég kannaðist við. Við ræddum um heima og geyma, en aðallega tengda kinkinu. Við ræddum meðal annars klám og kynfræðslu, eða skort á kynfræðslu. Þegar fjaraði undan spjallinu snéri ég mér í sætinu og fylgdist með þar sem ein var hressilega flengd fyrir framan lýðinn. Þá heilsaði mér náungi sem sat við næsta borð. Þetta var hans fyrsta leikpartý og ég spurði hvernig honum finndist það. Maður spyr alltaf útlendinga "há dú jú læk æsland?" Eins spyr maður alltaf nýgræðlinga hvernig þeir upplifi senuna, partýin eða munchin. Eða það geri ég.

Hann lét vel af partýinu og sagði svo að hann tæki sérstaklega eftir því hvað allir væru glaðir. Ég horfði yfir salinn og tók eftir því líka. Hingað til hafði ég ekkert spáð í það og gengið út frá því sem vísu, þetta er stemmingin í nær öllum partýum sem ég hef farið í. Afhverju ætti maður ekki að vera glaður perri í perrapartýi? 

Ég er ennþá svolítið hugsi og svolítið montin af þessari athugasemd hans. Hugsi yfir því að þetta sé eitthvað sem fólk tekur sérstaklega eftir, eins og það sé óvenjulegt að allir séu glaðir. Montin af því að þetta er vissulega ánægjulegt og þetta er fólkið "mitt" sem er glatt og nýtur sín í eigin skinni. 

Ummæli

Vinsælar færslur