Þegar ég verð stór

Á þessu sama námskeiði og ég nefndi í síðustu færslu voru hjón. Þegar ég verð stór langar mig að verða eins og þau. 
Þrátt fyrir að vera um sextugt, vera búin að vera gift mjög lengi og eiga uppkomin börn þá voru þau samt svo dásamlega innileg hvort við annað. Það fóru augnagotur þeirra á milli og þau gerðu góðlátlegt grín hvort að öðru. Þau brostu, fífluðust og hlógu. Héldust í hendur og laumuðust til að kyssast þegar lítið bar á. Hvort um sig var óhrætt við að taka pláss, en á sama tíma voru þau auðmjúk og pössuðu sig að troða ekki öðrum um tær.
Þau voru svo hamingjusöm, sátt við lífið og greinilega (ennþá, eða kannski aftur?) skotin hvort í öðru. 

Þegar ég verð sextug, búin að vera gift lengi lengi og með uppkomin börn, þá langar mig að vera svona hamingjusöm í hjónabandinu. 

Ég er að spá.... hvað telst "lengi, lengi" vera langur tími? Þarf ég nokkuð að fara að drífa mig í að finna eiginmann til að þessi draumur geti orðið að veruleika?

Ummæli

Vinsælar færslur