Kinkið er mitt


Ég sem undirgefinn aðili í leiksambandi á mjög auðvelt með að setja mig í farþegasætið. Ég vil þiggja það sem leikfélaginn hefur að gefa,  ég vil finna að hann vilji mig, ég vil að hann noti mig, og ég vil að hann njóti mín. Á meðan ákveðnum grunn-þörfum mínum er mætt, þá þarf ég ekki mikið meira. Ég vil athyglina fyrst og síðast. Ég vil finna að ég sé verðug og eftirsóknarverð. Síðast en ekki síst, vil ég leika.

Vitið þið hvað leikfélagasamband er fljótt að staðna þegar staðann er svoleiðis? Ekki nema nokkra mánuði. Báðir aðilar þurfa nefnilega að koma með eitthvað að borðinu, langanir, væntingar eða hugmyndir. Fantasíur og ekki síst skýr mörk. 

Ég komst að þessu núna í haust og ég þurfti aðeins að taka til hjá sjálfri mér, endurhugsa dæmið og kortleggja sjálfa mig. Hvað var það sem ég vildi?
Þannig að ég steig út úr því hlutverki að vera undirgefin í hugsun og hegðun í öllum okkar samskiptum. Ég tók ábyrgð á mínu kinki. Enda er mitt kink, mitt kink. Okkar leikfélagasamband er svo okkar leikfélagasamband, sem við eigum bæði tvö og þurfum bæði tvö að rækta.

Í kjölfarið varð ég duglegri við að orða það sem mig langaði, koma með hugmyndir og tillögur. Ég gaf honum verkfæri til að vinna með. Ég meira að segja tók af skarið og fór að leyfa mér meira, gat verið baldin og gat látið hafa fyrir mér. Eins gat ég verið þögul og hlýðin ef sá gállinn var á mér. Stundum fór ég alveg í eigin heim, djúpt sokkin í eigin upplifun, þar sem hann var einhversstaðar langt burtu í bakgrunninum. 

Hann hafði stundum gefið það í skyn að hann vissi ekki hvort hann væri að fullnægja mínum þörfum, og þegar ég hugsa til baka get ég alveg skilið það. Ég var svo kyrfilega spennt í farþegasætið að ég var hálfpartinn orðin að laumufarþega. Lét lítið fyrir mér fara og var bara nokkuð sátt með allt. Ég vildi bara gera það sem hann vildi gera, og kom sjaldan með óskir eða tillögur að leikjum.
Þegar ég skrifa þetta sé ég að ég hef verið orðin subbinn sem ég sjálf fíla enganveginn. Þessi undirláti sem leggur ekkert til sjálfur og vill bara þiggja. Það er ekki skemmtileg uppgvötun skal ég segja ykkur. 

Ég á von á honum á eftir. Við erum búin að kortleggja hluta af hittingnum í þaula. Allt frá því hvernig ég er klædd (nakin, að sjálfsögðu), yfir í hvar hann situr (í sófanum) og í hvaða stellingu ég er (krjúpandi fyrir framan hann), og hvað við gerum (það er leyndarmál).
Þetta er mín tillaga að einhverju nýju sem við höfum ekki gert áður og ég hlakka til! Í mínum huga er þetta bara fyrir mig, svolítið eigingjörn ósk, til að prófa þetta sem mig langar að prófa og upplifa, á mínum forsendum. Þetta er mín stund, í mínu rými sem er mér ákaflega dýrmæt.

Í stóra samhenginu skiptir það mig miklu máli að mínum þörfum sé fullnægt og ég, og enginn annar en ég, verð að sjá til þess að svo sé gert. Mitt kink, er nefnilega bara mitt kink, og ég ein ber ábyrgð á því að mínum þörfum sé fullnægt. Til þess þarf ég að átta mig á mínum þörfum og tala um þær við leikfélagann.

Riddarinn á hvíta hestinum sem les hugsanir og veit upp á hár hvað ég vil (þó ég viti það ekki sjálf). Þið vitið, þessi sem hefur endalaust úthald, með stóran lim, sem er uppátækjasamur leikfélagi og elskhugi, góður vinur, með frábæra menntun (á sviði sálfræði, félagsfræði, lýðheilsu eða öðru mannlegu, eða einhverju sem ég gæti haft áhuga á), þolinmóður og með tilfinningaþroska upp á 11, og góðar tekjur, og 100 ára reynslu í BDSM, og á sjálfsögðu mesta dótið (til þess þarf hann að hafa góðar tekjur). Hann er ennþá bara fastur í fantasíuheimi huga míns, og verður það víst bara áfram.... til eilífðarnóns.

Ummæli

Vinsælar færslur