Er það kostur/gott ef marið endist lengur?

Ég fékk þessa spurningu um daginn og þurfti aðeins að hugsa mig um. Hausinn á mér snérist í nokkra hringi og þankangangurinn var um það bil svona: 

JÁ! Algjörlega, það er best! Þá hefur maður minjagrip um dásamlegan leik sem maður getur lifað á svo lengi sem marið endist. Ekki bara minningarnar sjálfar, endur áminning um leikinn þegar maður sér marið, og síðast en ekki síst, þegar maður finnur fyrir eymslunum. Ég fæ vatn í munninn við tilhugsunina. 

Eða.... Sko, bara ef marið er ekki of stórt og áberandi, eða á óheppilegum stað.
Ég vil helst ekki þurfa að ganga með trefil í tvær vikur af því að ég er með marblett á hálsinum sem mig langar ekki að þurfa að útskýra. Eins þá fer ég reglulega í sund, og mig langar ekki að þurfa að sleppa sundferðum í lengri tíma vegna þess að ég lít út eins og fórnarlamb heimilisofbeldis. Að sama skapi langar mig ekki að þurfa að svara spurningum barnanna minna um hvaðan ég fékk þetta mar eða hitt. Já, það er spurt! Því síður langar mig að þurfa að neita þeim um sundferðir, ef út í það er farið. 

En!! Það fer líka eftir leiknum. 

- Ef að þetta hefur verið góður leikur, þá er það dásamlegt að hafa sjáanlegar áminningar. Í mínum huga eykur það nándina, að geta sagt viðkomandi að það sjái á manni og senda jafnvel myndir af því. Marblettirnir tengja okkur einhvernveginn saman, því það er tveggja manna verk, annar skaffar líkamann og hinn skaffar athöfnina. 

- Ef að eitthvað við leikinn hefur ekki gengið vel: Kannski hefur viðkomandi gengið yfir einhver mörk,  kannski hefur viðkomandi ekki staðið undir væntingum, til dæmis um nánd, umhyggju eða áhuga eftir leik. Þá verða marblettirnir bitrar áminningar um vonbrigðin og geta jafnvel ýtt undir vondar hugsanir til sjálfrar mín fyrir að hafa látið gabbast, eða ekki staðið mig í að krefjast þess sem ég þarfnaðist. 

Er það kostur/gott ef marið endist lengur?

Stutta svarið er já, en þó með þeim fyrirvara að það sé eftir góðan leik með góðum leikfélaga og hefur ekki of hamlandi áhrif á daglegt líf.

Eftirmáli:
Það er eins og mér finnist hlutirnir verði bara flóknari með aldrinum. Hafi ég fengið þessa spurningu fyrir 15 árum síðan þá hefði svarið verið , bara einfalt já og ekkert meira um það að segja.  

Ummæli

Vinsælar færslur