Fríða og dýrið

Disney myndin var í miklu uppáhaldi hjá mér. Í upphafi segir sögumaður eitthvað á þá leið að hégómafullur prins neitaði gamalli og ljótri konu um húsaskjól. Ég tók því þannig að hann vísaði henni á dyr því hún væri ófríð. Sú gamla var í rauninni fögur álfkona og lagði á hann álög vegna hégóma síns.

Ok, ég hefði alveg veitt grey kerlingunni húsaskjól þó hún væri ófríð. Ef hún myndi banka uppá hjá mér myndi ég samt sennilega benda henni á gistiheimilið sem er hérna rétt hjá. 

Nema hvað, mér varð hugsað til prinsins núna áðan. Í bríeríi skellti ég inn einkamálaauglýsingu í einn hópinn á fetlife. Undirgefin kona óskar eftir spjalli við drottnandi aðila. Það kom mér pínulítið á óvart hvað viðbrögðin voru mikil.Ég held að fáir hafi lesið meira en fyrirsögnina. Bæði skilaboðum og
vinabeiðnum rigndi yfir mig. 

Ég kíkti á prófíl eins sem sendi mér skilaboð. Hann var með þrjár myndir af sér; þrjár svo til alveg eins sjálfur þar sem undirhakan og nefið á honum voru í forgrunni. Nei, hann vakti ekki áhuga minn. Ég kíkti á næsta; sá var með mynd af sér tekna örugglega í speglinum inni á baði hjá foreldrum sínum, og nokkrar typpamyndir sem sumar hverjar voru ekki í fókus. Já, nei, ég var ekki til í það heldur. 

Það hvarflaði að mér að þarna væri ég ekki að gefa þeim séns, og hafnaði þeim alfarið út frá myndunum af sér. Ég efast um að þeir leggi á mig álög eins og álfkonan í sögunni, en mér fannst ég vera engu skárri en prinsinn. Hinsvegar þá gef ég mér leyfi til að velja og hafna úr þeim aragrúa af skilaboðum sem ég hef fengið, ég hef ekki tíma eða orku til að komast að því hvort það sé vit í kollinum á þeim og hvort mér finnist þeir skemmtilegir. Kannski var álfkonan líka ein af mörg hundruð betlurum sem höfðu bankað upp á í höll prinsins þann daginn. Afhverju ætti hann að veita henni húsaskjól og ekki öllum hinum? Kannski var hann búinn að segja nei við fjölmarga aðra sama daginn, og því væri kannski ekki sanngjarnt að segja allt í einu já við hana. Þarna vantar forsögu svo hægt sé að setja þetta almennilega í samhengi.

Eftir þessar pælingar er ég pínulítið með prinsinum í liði, það var samt óheppilegt að þessi kona hafi einmitt verið álfkona sem var tilbúin að leggja hann í álög. 

Ummæli

Vinsælar færslur