Senan og perralingar
Í gegnum tíðina hef ég mætt reglulega á munch, í partý og á viðburði tengdum BDSM.
Viðburðirnir, fólkið sem og samfélagið í kringum þetta allt saman kallast einu nafni senan. Það eru svosem margar mismunandi senur til á landinu; poly-senan, swing-senan, og svo eru pottþétt vanillu-senur til líka.
Þessa senu ætla ég að kalla kink-senuna. Það er "mitt" fólk, minn ættbálkur og mér finnst ég algjörlega eiga heima meðal þeirra.
Undanfarið hefur verið lægð yfir mér, eins og lesendur vita. Áhuginn sprettur upp í stutta stund, en líður hjá, og oft langt á milli. Í ofanálag hefur lífið bara verið þannig að ég hef ekki getað mætt á neina viðburði mjög lengi. Þeir hafa alltaf lent á þannig tímum að ég kemst ekki af einhverjum ástæðum. Yfirleitt er mér alveg sama, enda áhuginn í dvala. Stundum verð ég svolítið súr yfir óréttlæti heimsins. Flesta daga tek ég þetta á æðruleysinu, koma tímar, koma ráð. Þetta verður varla svona að eilífu og amen.
Ég hef samt alltaf séð glitta í perralinga á facebook. Stór partur af "fólk sem þú gætir þekkt á facebook" hefur verið tengdur senunni. Það hefur glatt mig svolítið að sjá að þetta fólk er ennþá til, er ennþá þarna úti að gera sína kinky- og vanilluhluti, að lifa sínu lífi eins og ég.
Undanfarið hefur þeim perralingum fækkað sem koma upp á "fólk sem þú gætir þekkt á facebook", þetta gerðist hægt og rólega en núna um daginn tók ég eftir því að það var ekki ein einasta manneskja sem ég gat tengt við senuna á þessum lista. Í staðinn var komið fólk í nærsamfélaginu, tengt skóla barnanna minna, fjarskyldar frænkur og frændar, og svo fólk sem ég hafði ekki hugmynd um hver eru.
Ekki einn perralingur! Ég held að það segi ágætlega til um hversu virk ég er í senunni um þessar mundir. Kannski ég þurfi að skella mér á munch næsta mánudag.
Hver vill koma með mér?
Ummæli