Þrándur í götu?

Eigum við eitthvað að ræða Draumaprinsinn (með stóru D)? 

Mér finnst ég svo ótrúlega lánsöm og heppin að hafa fundið hann, og hann var bara svo til beint fyrir framan nefið á mér allan tímann. 

Stóra spurningin sem vafðist fyrir mér þegar við vorum að kynnast og byrja að hittast, eins og þið kannski munið: Er hann kinky? Eða kannski meira: Hver er hans afstaða til BDSM?
Ég vissi að það var mjög ólíklegt að hann væri sjálfur kinky, enda hefði það verið of gott til að vera satt. En hvernig myndi hann bregðast við þegar ég segði honum að ég væri það? Það hræddi mig svakalega mikið. Kannski myndi hann verða hneikslaður. Kannski myndi hann æsast upp við tilhugsunina, jafnvel vera til í slaginn. Eða kannski myndi hann hafna mér algjörlega. Þessar hugsanir lágu á mér eins og mara. 

Það hjálpaði ekki til að ein vinkona mín sagði það skýrt og skorinort að ég yrði að segja honum frá því, og það sem allra allra fyrst!

Ég var samt hrædd við að eyðileggja þetta fallega samband sem var að myndast á milli okkar, þar sem nánd, snerting, kúr og kossar var orðið daglegt brauð. Ég vildi alls ekki sleppa hendinni af því. Hinsvegar vil ég heldur ekki vera með manni sem tekur mér ekki eins og ég er. Það væri engin framtíð í sambandi þar sem ég væri inni í skápnum og ég gæti ekki lifað við það. Það væri líka alls engin framtíð ef hann myndi svo hafna mér á þeim grundvelli að ég væri kinky.
Málið var líka að þarna var aðili sem mig langaði að eiga framtíð með. Þess vegna varð þetta allt saman enn viðkvæmara og erfiðara viðureignar. 

Ég er á því að maður verður að gera það sem maður verður að gera til að líða betur. Þar sem þetta var farið að íþyngja mér talsvert ákvað ég að nýta fyrsta tækifæri sem gæfist til að gera hreint fyrir mínum dyrum. 

Eitt kvöldið eftir gott kynlíf, daður og koddahjal um fyrri rekkjunauta kom það upp úr krafsinu að Draumaprinsinn er ekki jafn mikil vanilla og ég hélt. Þar sem samtalið var komið örlítið inn á þessa braut þá greip ég tækifærið og sagði honum hvar ég stæði: Að ég væri kinky, að kinkið væri órjúfanlegur hluti af mér, eitthvað sem ég hafði uppgvötað snemma, og hefði iðkað það lengi og verið virk í samfélaginu í kringum BDSM í fjölda ára. 

Hann hoppaði ekki hæð sína af gleði við að heyra þetta. Það kom þung og þrúgandi þögn þar sem hann melti þetta. Síðan sagði hann að hann væri ekki alveg þarna.
Ég datt í þann gírinn að útskýra að í grunninn byggir þetta á trausti, á því að tala saman, og að kink væri allskonar. Ég týndi til dótatöskuna mína og fór að sína honum gullin mín á meðan ég útskýrði að kink væri alls ekki "one size fits all" dæmi og að oft snérist þetta ekki um sársauka, bindingar eða ákveðnar athafnir, heldur nálgunina. Ég heyrði sjálfa mig vera komna hálfpartinn í vörn og að réttlæta kinkið. Eftirá varð ég svolítið súr út í sjálfa mig fyrir að gera einmitt það, ég þarf ekki að réttlæta kinkið, ég þarf að ekki að setja það í fallegar neytendavænar umbúðir, eða hvað? 

Hann fær klárlega rokkstig fyrir að hafa hlustað af athygli, verið almennt frekar jákvæður og hann hljóp ekki öskrandi út. En hann sagðist ekki vera þarna, og það sat í mér.
Daginn eftir var ég aum á sálinni og lítil í mér. Það var erfitt að hreinsa úr þessum skáp gagnvart honum. Mér fannst ég berskjölduð og þurfti bæði tíma og næði til að jafna mig. 

Sko, hann hljóp ekki öskrandi út, hann hafnaði mér ekki, hann sagði ekkert ljótt um kinkið eða nokkuð í þá veru. En hann sagði að hann væri ekki alveg þarna. 

Ég velti því fyrir mér hvernig þetta svo fer, því að á allan annan hátt er hann dásamlegur. Hversu stór þrándur í götu verður kinkið? Það mun tíminn einn leiða í ljós.

Ummæli

Nafnlaus sagði…
En sko. Þið rædduð þetta. (Hefðuð þurft að gera það hvort sem er, á einhverjum tímapunkti.)
Hann er "ekki þarna". Það er allt í lagi, það eru ekki allir eins.

En. Ef hann er sáttur við þig (og þitt), og þú ert sátt við hann (og hans)..... Þá er amk gagnkvæmur vilji til að tala um hlutina, og reyna að ná einhverri lendingu.
Og, eins og með alla samninga, þá er málið að finna sameiginlega hlutann, og stefna þangað. Það er líka, eins og með alla samninga, að það þarf líka að gefa eftir, og það í báðar áttir.....

(hjálpaði ekki mikið að tuða svona hjá mér, er það?)

Vinsælar færslur