Hnökrar

Mig verkjar. Mig verkjar í sálina, ég er sár, óörugg og lítil í mér. 
Mig langar mesta að pakka hjartanu mínu í bómull og búbbluplast og læsa það inni í öryggishólfi. Mér finnst að mér eigi ekki að líða svona, og alls ekki í sambandi við Draumaprinsinn. 

Lesendur velta því sjálfsagt fyrir sér hvað sé eiginlega í gangi, og ég skal segja ykkur það. Þetta er ekkert annað en brostnar vonir, vonbrigði og sáryndi í ungu sambandi.

Í örstuttu máli áttum við Draumaprinsinn stefnumót. Fyrir helgi spurði hann mig hvenær við gætum næst hittst og ég bauð honum fyrsta mögulega kvöldið í það. Strax eftir vinnu hjá mér á mánudegi. Hann benti kíminn á að hann væri að vinna aðeins lengur en ég, en mánudagskvöldið var tekið frá fyrir okkur tvö. Það var að vísu munch þetta kvöld sem ég hafði hugsað mér að kíkja á, en ég ákvað að forgangsraða Draumaprinsinum, enda hafði ég lítið sem ekkert hitt hann í tvær vikur og saknaði hans sárlega. 

Ég var farin að hlakka mikið til og taldi niður dagana, svo klukkutímana, svo mínúturnar. Núna ætti hann að vera að klára vinnudaginn og leggja af stað heim. Núna ætti hann að vera á heimleið. Núna myndi ég fara að heyra í honum hvað úr hverju. Á sama tíma var ég að stússa fyrir vinnuna, enda eru verkefnin allskonar og endalaus þegar maður rekur eigið fyrirtæki. Núna ætti hann að vera kominn heim, nema hann hafi tafist eitthvað. Hann hlýtur að hafa tafist fyrst hann er ekki búinn að hafa samband. Ég hélt áfram að vinna og beið sallaróleg, í þeirri vissu að við höfðum ætlað að hittast þegar hann yrði laus. En tíminn leið og ekkert heyrðist frá Draumaprinsinum. 

Upp úr klukkan tíu um kvöldið þá sendir hann mér skilaboð: Ég steingleymdi því að við ætluðum að hittast í kvöld. Ég fór að stússa í garðinum heima, enda akkúrat veðrið í það. Við hittumst bara seinna. Ég er farinn að sofa núna, góða nótt elskan. 

Ha? Hann gleymdi því að við ætluðum að hittast?! Þegar ég var búin að hlakka svo mikið til og bíða eftir þeirri stundu að við myndum vera saman. Ekki nóg með það, þá var hann bara farinn að sofa?! Og klukkan ekki það margt að við gætum ekki hittst og varið nóttinni saman, sem við höfum nánast alltaf gert þegar ég er barnlaus. 

Vá.... Bíddu ha?! Skipti ég hann ekki meiru máli en þetta? Hann tékkar ekki einu sinni á mér, eða gefur mér færi á að svara þessu! 

Svo helltist það yfir mig eins og flóðbylgja, gömul sambærileg atvik, endalaus vonbrigði og særindi, og vanmáttur. Þessar sáru tilfinningar og höfnun að upplifa það að ég og sambandið værum einfaldlega ekki í forgangi, að það skipti ekki máli hvað ég gerði, ég myndi sitja eftir með sárt ennið. 

Ok, Draumaprinsinn vissi ekki að þetta triggerar og opnar gömul sár. En fyrst hann tekur svona létt á þessu, eins og það sé ekkert mál að gleyma því að við ætluðum að verja kvöldinu saman, á meðan ég lagði allt annað til hliðar, erum við þá yfir höfuð á sama stað með þetta samband? Þurfum við kannski að tóna þetta niður svolítið, í eitthvað einfaldara? Kannski... bólfélagar en ekki kæruspar? Kannski er það rétta leiðin. 

Hefði ég kannski átt að hafa samband við hann, til að minna á mig? Já, kannski, en aldrei í lífinu hélt ég samt að hann myndi bara gleyma þessu. Og ef hann gerði það, þá gerði ég einhvernveginn ráð fyrir allt öðrum viðbrögðum frá honum. Eitthvað meira á borð við: Fyrirgefðu elskan mín, en ég gleymdi því að við ætluðum að hittast. Mér þykir það svo leitt!! Hvernig get ég bætt það upp?

En allt í lagi, ég kyngdi sárindunum og vonbrigðunum sem best ég gat. Ég ákvað að sofa á þessu. Á morgun var nýr dagur, og ég ætlaði að ræða þetta við hann. Helst vildi ég hitta hann, fá innilegt faðmlag og vissu um að þrátt fyrir allt þetta þá væri ég samt elskuð og að ég skipti hann sannarlega máli. 

Næsta dag heyrði ég ekkert í honum, fékk ekki þetta daglega "Góðan daginn"- snapp og engin skilaboð. Sjálf var ég of sár til að feika eitthvað "góðan daginn dúllurassinn minn" sem engin innistæða væri fyrir. Þessi óvanalega þögn ýtti bara undir þá tilfinningu að ég skipti hann ekki máli og þá tilfinningu að það gerðist ekkert nema ég hefði frumkvæði að því.
Það sem mig sárlega vantaði var einmitt hið gagnstæða. Frumkvæði frá honum og að heyra það og finna að hann vildi mig, að ég skipti hann máli.

Hvað myndi gerast ef ég hefði bara ekkert samband við hann? Hvað myndi líða langur tími þangað til hann hefði samband við mig? Og myndi ég yfir höfuð heyra í honum aftur?

Ég hef ekki úthald í svoleiðis prófanir þannig að um kvöldið þá sendi ég honum skilaboð. Ég fékk strax jákvætt svar. Í stað þess að leyfa þessum sáryndum að gerjast enn frekar og verða að enn stærri pakka þá hellti ég úr vogaskálunum mínum. Ég sagði honum alla mína upplifun, og hugarrenninga. Ég sagði honum að í gruninn væri ég sár, svekkt og fannst eins og ég skipti hann ekki máli. 

Þrír punktar birtust á skjánum, og hurfu.... birtust svo aftur...
Svo kom frá honum að ég hefði nú alveg getað haft samband við hann af fyrra bragði, að það þurfi nú tvo til að láta samband ganga upp, og að ég væri að skella allri ábyrgðinni á hann. Hann sé nú bara mannlegur og geti gleymt sér eins og hver annar. 

Aftur varð ég hálf orðlaus. Ég var ekki að skella skuldinni á hann. Ég hafði einfaldlega opnað mig fyrir honum, deilt minni upplifun á þessu atviki, mínum tilfinningum, og mínu óöryggi, og uppskorið.... ekkert. Enga afsökunarbeiðni, enga fullvissu um að jú víst skipti ég hann máli, eða að auðvitað vildi hann laga þetta og gera betur. Nei, ábyrgðin var mín megin, ég hefði getað... ég hefði átt að... og það þarf tvo til... Þrátt fyrir að það var hann sem gleymdi því að við ætluðum að hittast og það var hann sem bað um þennan hitting til að byrja með. 

Svo kom eitthvað um að engin sambönd séu hnökralaus og það sé allt spurning um það hvernig unnið sé úr hlutunum. Þá varð ég eitt stórt spurningamerki í framan. Já, var ég ekki einmitt að því? Að reyna vinna úr þessum hlutum. Hinsvegar fannst mér hann ennþá vera á þeim stað að fyrra sig ábyrgð. 

Samtalið endaði þannig að jú, honum þótti leitt hvernig fór, og að ég má ýta í hann ef hann gleymir sér og ég má hafa samband við hann ef það er eitthvað sem ég vil ræða. Svo bauð hann einfaldlega góða nótt og var farinn. Ég má gera ýmislegt, en ég velti því fyrir mér hvað hann ætli sjálfur að gera.

Núna, daginn þar á eftir, er ég ennþá engu nær. Mig langaði að hitta hann í gærkvöldi, en hann var með gest, og þetta er þriðja nóttin í röð, þar sem ég barnlaus og við höfum ekkert hittst. Það eitt og sér er mjög óvanalegt miðað við hvernig þetta hefur verið. 

Er þetta svona þegar nýja brumið er farið? Eða hann einfaldlega að missa áhugann? 

Ég get bara sagt fyrir mitt leiti að þetta allt saman keyrir upp óöryggi og vanlíðan hjá mér. Núna þegar mig vantar mest af öllu í heiminum fullvissu og faðmlag, að virkilega finna það að ég skipti hann máli, hann vilji mig og velji mig, þá heyri ég lítið sem ekkert frá honum, engin ósk um að hittast, engin hlý orð, ekkert sem lætur mér líða betur. 

Ég er mjög hugsi yfir þessu öllu saman.... Er þetta eitthvað sem maður lagar, eða er best að bakka frá? 

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Vá hvað ég skil þig vel. Þínar tilfinningar eiga rétt á sér og miða við skrifin þá ert þú að taka tíma og leggja þig fram og hann ekki. Ef maður er spenntur að hitta einhvern þá gleymir maður því ekki. Maður verður spenntur og tilhlökkun kemur með bland af þrá og greddu.

Aldrei hætt að leita en þessi fiskur virðist ekki vera á sama stað og þú í sambandinu.
Nafnlaus sagði…
Nú færðu rafrænt knús! Þetta er ekki ásættanlegt af hans hálfu. Urgh.....

Vinsælar færslur