Nándarboð

Fyrir nokkrum árum skrifaði ég færslu sem heitir Sambands-plantan. Þar útlista ég í grófum dráttum hvernig ég sé samband sem sjálfstætt fyrirbæri, sem stendur utan við einstaklingana sem það mynda. Eftir að hafa hlustað á allskonar podköst og lesið mikinn fróðleik um sambönd, þá sé ég að þessi myndlíking er ekki svo fjarri lagi. 

Til að sambandsplantan nái að vaxa og dafna þarf að sinna henni. Það þarf að vökva hana og sjá til þess að hún fái næringu. Í fyrri færslu talaði ég um samskipti í þeim efnum og mikilvægi þeirra. Núna langar mig að tala um eitt form samskipta, sem ég þýddi sem nándarboð (e. bid for connection). Fyrir þau sem vilja vita meira og kafa dýpra mæli ég með öllu frá Gottman hjónunum

Nándarboð er hverskonar ósk annars aðilans um athygli, viðurkenningu, hlýju eða einhverskonar jákvæð tengsl, sem sagt ósk um nánd í einhverri mynd.
Þau geta verið allskonar! Það getur verið spurningar eins og Hvernig lít ég út? eða Hvernig var dagurinn þinn? Það getur verið að vekja athygli hins aðilans á einhverju, Sjáðu þetta! eða Varstu búinn að frétta þetta? Það getur verið svo lítið sem augnatillit eða smá bros. Í hröðu og flóknu nútímasamfélagi geta nándarboðin verið hlekkur á áhugavert efni, mynd af einhverju sem við tökum eftir eða sæt skilaboð. 

Rannsóknir Gottman hjónanna hafa sýnt fram á að pör sem eru duglegri að bregðast við nándarboðum hvors annars eru jafnan farsælli en önnur pör. Pör sem eru hamingjusamlega gift til lengri tíma bregðast að jafnaði við 86% nándarboða makans. Þegar litið er á pör sem hafa slitið samvistum eftir minna en sex ára hjónaband kemur í ljós að þau brugðust að meðaltali aðeins við 33% nándarboðum makans. 

Í stuttu máli: þetta skiptir máli! Þetta skiptir heilmiklu máli.

Fræðimenn segja að hægt sé að bregðast við nándarboðum á þrjá mismunandi vegu; Jákvætt, neikvætt eða ekki. Það segir sig sjálft að auðvitað er best að bregðast alltaf jákvætt við, og það þarf oft ekki að vera meira en að sýna smá viðbrögð við því sem makinn er að segja.  

Öll viljum við jú finnast við tilheyra, vera heyrð og séð af þeim sem okkur þykir vænt um. En þegar það eru of mörg nándarboð sem ekki er svarað eða svarað á neikvæðan máta upplifum við höfnun og að við séum misskilin, ekki eftirsóknarverð eða mikilvæg. Þegar þetta gerist þá fer það að grafa undan nánd, öryggi og trausti í sambandinu.  

Mér finnst þetta eitthvað svo borðleggjandi.
Ef að makinn sýnir þér áhuga, sýndu honum áhuga til baka. Punktur. 

Þó svo að flestar rannsóknir á nándarboðum snúi að rómantískum samböndum, þá á þetta við um vina-, fjölskyldu-, og viðskiptasambönd líka. 

Samskipti fólks hafa verið mér mjög hugleikin undanfarið. Ég gæti haldið áfram og farið yfir í mikilvægi litlu samskiptanna og veiku tengslanna, en ætla að geyma það í næstu færslu. 

Ummæli

Vinsælar færslur