Veiku tengslin

Í síðustu færslu skrifaði ég um nándarboð og mikilvægi þeirra í samböndum. Núna langar mig að skrifa um mikilvægi veiku tengslanna. 

Hvað er ég að tala um þegar ég segi veik tengsl. Jú, það er fólkið sem þú hittir á förnum vegi.
Það getur verið konan í sjoppunni, sundlaugarvörðurinn, pósturinn, afgreiðslustelpan á bensínstöðinni, bókavörðurinn, o.s.frv. Sem sagt, fólk sem þú hittir kannski reglulega sem þú ert þó ekki í persónulegum tengslum við. Fæst okkar gera sér grein fyrir því hvað veiku tengslin skipta miklu máli. 

Býðuru góðan daginn þegar þú mætir í sundlaugina, eða hleypuru beint í augnskannann? Hrósaru póstinum fyrir góða þjónustu, eða tekuru bara pakkann og segir takk og bless? Nefniru góða veðrið þegar þú ferð í sjoppuna að kaupa ís? Eða minnistu á nýju klippingu afgreiðslustelpunnar á bensínstöðinni? Ég er ekki viss um það. 

Rannsóknir hafa hinsvegar sýnt fram á það að þessi samskipti skipta gríðarlega miklu máli þegar kemur að velferð okkar. Það er sterkt samband á milli líðanar og magns þessa samskipta. Eftir því meira sem þú talar við ókunnugt fólk umfram það nauðsynlegasta, þeim mun betur líður þér. 

Á sama tíma er sjálfsafgreiðslulausnum að fjölga og ekki margir staðir þar sem maður þarf að eiga samskipti við ókunnugt fólk. Á sama tíma hrakar geðheilsu fólks upp til hópa. Ætli það sé einskær tilviljun? 

Þar sem þetta á nú að heita kynlífblogg þá finnst mér ég verða að tengja þetta við eitthvað kynferðislegt. Þá langar mig að nefna daður. 

Daður er dásamlegt. Daður er gott fyrir egóið og skilur eftir sig sérstaklega góða tilfinningu. Bæði hjá daðraranum og þeim daðraða. Maður getur líka daðrað við alla, því daður er ekkert annað en ein leið til að sýna öðru fólki áhuga. Daður getur verið með líkamstjáningu, brosi og augnsambandi, það getur verið með orðum, hrósi og hvatningu, sambland af öllu eða jafnvel eitthvað annað. Stærsti kosturinn við daður er að það er skemmtilegt, það ýtir líka undir sjálfstraustið og lætur okkur líða vel. 

Döðrum meira, hver veit nema það gæti verið upphafið að einhverju. Í versta falli er það bæði hollt og gott. 

Ummæli

Vinsælar færslur