Kannski er ástin eins og....

...kókaín. Ferlega ávanabindandi og erfitt að slíta sig frá henni. 

Þegar við upplifum rómantíska ást þá fer umbunakerfi heilans á yfirsnúning. Heilinn er baðaður í dópamíni þegar við hittum okkar heittelskaða, og það færir okkur sælu sem er engri lík. Við fáum ekki nóg af viðkomandi og viljum alltaf meira, og meira, og meira.... og þegar elskhuginn er fjarri okkur þá hugsum við helst ekki um annað. Hugsanir um hann poppa upp í tíma og ótíma og ótrúlegustu hlutir draga hugann að honum. 

Ég þekki þetta af eigin reynslu, enda var ég handónýt til vinnu þegar við Draumaprinsinn vorum að stíga okkar fyrstu skref. Reyndar mjög lengi vel framanaf og sumir myndu kannski segja að ég hafi ennþá verið í því ástandi þegar upp úr slitnaði.
Hugur minn var hjá honum öllum stundum. Honum skaut upp í kollinum á mér í tíma og ótíma, hvort sem mér líkaði það betur eða verr. Allt sem við höfðum gert saman, allt sem við gátum gert saman, allt sem hann hafði áhuga á, eða ég gat tengt við hann varð áhugavert í mínum huga, og svo framvegis. Þegar við vorum saman var það svo óendanlega gott og það var nánast ómögulegt að slíta sig frá honum. Ég vona að einhver ykkar kannist við þetta ástand, því það getur verið dásamlegt!

Þetta ástand truflaði vinnuna mína og einkalífið. Ég fann það sjálf að ég var andlega fjarverandi meira og minna. Mikið var þetta samt ljúft. Það er nefnilega gott að elska, og það er gott að vera elskuð. Ég gekk um í bleiku skýji og fætur mínir snertu ekki jörðina. 

Ég var sannarlega í sæluvímu!

Sannarlega í vímu og vímuefnið mitt var Draumaprinsinn. Rannsóknir hafa einmitt sýnt fram á það að rómantísk ást er ekki svo frábrugðin fíkn.
Með því að nota heilaskanna hafa rannsakendur komist að því að þegar einhver hugsar um þann sem hann er ástfanginn af virkjast dópamínrásir heilans sem tengjast einbeitingu, orku, hvatningu, örvæntingu og ílöngun. Öll þessi heilasvæði virkjast líka þegar fíkill hugsar um fíkniefnið sitt. Að því leiti má segja að rómantísk ást sé á pari við að vera haldinn fíkn. Já, ég kannast sko við það.

Eins mikil og sælan er þegar við fáum stöffið okkar, þá er niðurtúrinn jafn vondur. Sérstaklega þegar hætt er "cold turkey" (mig vantar íslenskt heiti yfir þetta). Ji dúdda mía, þekki ég það líka!! Í þessu tilfelli var Draumaprinsinn stöffið mitt, og það var sannarlega hætt "cold turkey". 

Ég hef tæklað lífið eftir að Draumaprinsinn sagði mér upp eins og ég sé í fráhvörfum. Sem má segja að ég sé sannarlega í. Stöffið mitt var fjarlægt allt í einu og ég þarf að lifa án þess að fá daglega dópamín skammtinn minn í boði Draumaprinsins. Heilinn minn ÖSKRAR á stöffið sitt og það er ekkert sem kemur í staðinn. Hann bendir á allt sem væri mögulega eitthvað örlítið hægt að tengja við Draumaprinsinn, því hann vill stöffið sitt! Heilinn minn vill ekki vera í þessari dópamínþurrð og þurfa sjálfur að skaffa mér dópamínið til að halda mér uppi. Draumaprinsinn var einmitt svo góður í því og alsælan altumlykjandi. Óréttlætið er algjört og ég fæ að kenna á því. 

Hinsvegar veit ég að eins og með önnur fráhvörf, þá mun þetta líða hjá. Ég þarf bara að gefa því tíma, og sjálfri mér rými til að ná aftur þessu góða jafnvægi sem ég var í áður en ég kynntist Draumaprinsinum. Lífið var gott þá, og lífið getur orðið jafn gott aftur. 

Ummæli

Vinsælar færslur