Of gott til að vera satt

Eins og lesendur hafa væntanlega tekið eftir hefur Draumaprinsinn átt hug minn allan undanfarið. Þetta er búið að vera mikið ævintýri og algjör draumur. Mér hefur sjaldan fundist ég jafn elskuð og eftirsóknarverð og undanfarnar vikur og mánuði. Sjaldan hefur mér liðið jafn vel í eigin skinni. Mér hefur fundist ég vera með eitthvað dýrmætt, fallegt og alveg einstakt í höndunum. Eitthvað sem er jafnvel of gott til að vera satt. 

Enda má segja að þetta samband hafi verið of gott til að vera satt, þar sem það lifði varla sumarið af. Draumaprinsinn sagði mér nefnilega upp núna um daginn. 

Þegar öllu var á botninn hvolft þá var hann ekki tilbúinn í samband með mér. Allt í góðu. Svona er lífið. Það sökkar og ég lifi það af.

En mikið djöfull var það sárt!

Næstu daga á eftir var hjarta mitt kramið.
Ég syrgði sambandið okkar, ég syrgði allar góðu stundirnar sem við áttum, ég syrgði líka þá framtíðarsýn sem ég var búin að teikna upp, ég syrgði allt sem við áttum eftir að prófa og gera saman. Ég saknaði hans og ég saknaði nándarinnar við hann.
Hér um bil allt minnti mig á hann; kókið í ísskápnum sem ég keypti fyrir hann, gítarinn minn sem hann spilaði svo fallega á, rúmið mitt minnti mig á allar þær stundir sem við áttum þar, ákveðin tónlist minnti mig á hann, staðir sem við höfðum farið á saman, hlutir sem tengdust honum beint eða óbeint og meira að segja ákveðin hugmyndafræði, menning eða fólk sem ég tengdi við hann. Allt þetta nísti hjarta mitt sem var í sárum. 

Allskonar hugsanir og efasemdir þutu um huga minn. Hvað gerði ég vitlaust? Hvað hefði ég getað gert betur? Var þetta óumflýjanlegt og hefði gerst hvort sem er á einhverjum tímapunkti? Er þá ekki best að þetta gerðist tiltölulega snemma í sambandinu? Kannski ég sé hreinlega ekki hæf í að fara í samband? Hvað var ég að spá með að eltast við mann sem býr svona nálægt mér?!! 

Í alvörunni samt!

Afhverju leyfði ég því að gerast?!
Maðurinn býr nokkur hundruð metrum frá mér!!

Jú, það var ferlega gaman og kósý þegar allt var í blóma, en núna er það hörmulegt. Líkurnar á því að rekast á hann á förnum vegi, hvort sem mér líkar betur eða verr, eru mjög miklar. Ég fæ kvíðahnút í magann í hvert sinn sem ég sest undir stýri eða sé glitta í bláan bíl.
Þetta er einmitt ástæðan fyrir því að ég hef markvisst reynt að finna mér rekkjunauta sem eru ekki í sama sveitarfélagi og ég og helst ekki einu sinni í sama landshluta. Taugakerfið er baðað streituhormónum af minnsta tilefni og það er hvorki hollt né gott.

Vonandi læri ég af þessari reynslu og geri þetta ekki aftur!! 

Þess utan held ég að álitlegir karlmenn á hentugum aldri sem eru jafnframt á lausu séu ekki fleiri í næsta nágrenni.

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Ef það er eitthvað sem lífið hefur kennt manni er að það kemur sífellt á óvart. Bæði á góðan hátt og svo slæman. Það kemur nýr maður inn í þitt líf en ekki endilega þegar þú ert að leita. Það má svo alltaf inn á milli fá sér að ríða til að svala þeirri þörf og það getur verið gaman.

Vinsælar færslur