Sambandsslit
Það er skrítið að hafa lagt sig allan fram, með sambandsfræðin við bakhöndina, verkfærin í veskinu og allan viljann í heiminum til þess að gera vel, að dæmið hafi svo ekki gengið upp. Ég var svo 100% á því að gera þetta vel, að vilja byggja góðan og traustan grunn, sem byggði á gagnreyndum aðferðum. Eitthvað sem átti að endast, skapa traust og öryggi, eitthvað fallegt og einstakt sem myndi bara batna með tímanum.
Ég lagði mig alla fram, var heiðarleg um mínar þarfir, mína vankannta og mína fortíðardrauga. Ég lagði öll spilin á borðin og berskjaldaði mig inn að hjartarótum.
En viti menn, það dugði ekki til. Það þýðir ekki að taka viljann fyrir verkið þegar kemur að þessum málum og það þarf svo sannarlega tvo til. Báðir verða að vera til í þetta til að dæmið gangi upp.
Sambandsslitin kipptu eiginlega teppinu undan fótunum á mér. Ég hef verið að vinna hörðum höndum í að finna jafnvægið aftur og það hefur reynst þrautinni þyngri. Ég finn að ég er ennþá marin og blá á sálinni, og dálítið tortryggin í garð karlpeningsins. Mig langar ekkert mikið að henda mér beint ofaní djúpu laugina. Það sem hefur einusinni gerst áður getur jú alltaf gerst aftur, og ég einhvernveginn efast um að ég finni mann við hæfi. (Mig langar ekki aftur á vanilluveiðar.)
Ég fékk samt smjörþefinn af því hversu dásamlegt lífið er þegar maður elskar einhvern, og mig langar svolítið í það aftur.....
Ummæli