"Konur kenna mönnum hvernig þær vilja að þeir komi fram við sig í fyrstu samskiptunum þegar þær eru að kynnast mönnunum" 

Vinkona mín sagði þessa fleigu setningu um daginn og hún hefur setið í mér. 

Afhverju? Af því að ég held að þetta sé satt. Ég held meira að segja að ég geri þetta. Ekki beint meðvitað, en ég geri það samt. 

Í nýjum samskiptum segi ég oft það sem ég vil heyra frá viðkomandi, ég sýni sjálfa mig í góðu ljósi, vanda mig rosalega mikið, en passa mig að vera alltaf hreinskilin. Ég spyr spurninganna sem mig langar að ég sé spurð að, og ég veiti viðkomandi athyglina sem mig langar að fá. Þetta er einskonar útvörpun á sjálfri mér og því sem ég vil. Kannski í átt við speglasjálfið (fyrir þau sem þekkja það hugtak). Á sama tíma passa ég mig á því að hann fái að vita hvað mér líkar með því að bregðast vel við því, þannig að það fari ekki á milli mála hvaða hegðun og framkomu ég kann að meta hjá viðkomandi. 

Ég er líka alltaf að máta viðkomandi, skoða og meta. Hvernig bregst viðkomandi við þessu? Eða hinu? Hvernig tekur hann á óvæntum breytingum? Getur hann veitt mér tilfinningalegt öryggi? Veitir hann mér þá athygli sem ég þarf? Sinnir hann mér á þann hátt sem ég sækist eftir? 

Ég skoða ekki síður sjálfa mig. Hvernig líður mér þegar ég er í samskiptum við viðkomandi? Hvernig upplifi ég hann? Hvaða áhrif hefur hann á mig? Síðast en ekki síst, hvernig fíla ég sjálfa mig þegar ég er í samskiptum við hann?

Ég vona að ég sé dugleg að lesa í merkjamál og allar óyrtu óskir hins aðilans. Því jú, maður fylgist með og maður aðlagar sig að samskiptunum. Stundum þarf maður að teygja sig út fyrir þægindarammann og það getur verið skemmtilegt, jafnvel spennandi og æsandi líka. 

Hinsvegar er það oft þannig að ef viðkomandi aðili grípur ekki boltann, áttar sig ekki á mínum þörfum eða mætir þeim ekki jafnvel þó það sé rætt. Þá er vissulega betra að setja orkuna í eitthvað annað. Eins og að hekla tuskur. 

Ég hef sjaldan orðið svekkt og sár yfir því hvernig heklunálin og garnið hegðar sér. 

Ummæli

Vinsælar færslur