Nýjir nágrannar

Það flutti nýtt fólk í húsið ská á móti mér. Ég horfi yfir eldhúsvaskinn á innkeyrsluna hjá þeim. 

Eitt kvöldið var ég að ganga frá í eldhúsinu og stend við vaskinn. Ég sé að sendiferðabíll er í innkeyrslunni. Aftaní í sendiferðabílnum sé ég einhverja taktfasta hreyfingu. Ég áttaði mig ekki alveg á því á hvað ég væri að horfa, en ég gat ekki betur séð en að þarna væri manneskja, jafnvel tvær í faðmlögum. 

Þessi sjón fangaði athygli mína. Ég gat ekki annað en horft, og þegar mér tókst að slíta mig frá þessu þá fann ég mig knúna til að kíkja aftur. Í lengri tíma, að mér fannst, fylgdist ég með, taktfastar hreyfingar, svolítið ruggandi, fram og til baka, aftur í sendiferðabílnum. Hugur minn fór á flug og jafnvel þó ég hafi ekki getað greint nákvæmlega hvað væri að gerast inni í sendiferðabílnum, þá sá ég fyrir mér par í ástarlotum. Ég hugsaði með mér að það gæti eiginlega ekki verið, og þó... 

Forvitna ég fylgdist grant með. Það var svo ekki fyrr en nýji nágranni minn kom út úr húsinu nokkru seinna og opnaði dyrnar á sendiferðabílnum að ég áttaði mig á því sem ég var að horfa á. Þetta var ekki eins ég var hálfpartinn búin að ákveða; par í innilegum atlotum. Heldur var þetta í rauninni úlpa sem hékk á snaga þarna aftur í sendiferðabílnum og dinglaði svona til og frá. 

Ég held að þetta segi allan daginn mun meira um mig og minn sora haus heldur en nýju nágrannana mína. Maður getur samt velt því fyrir sér hvort þau séu kannski kinky. Það má, er það ekki?

Ummæli

Vinsælar færslur