Símamyndir

Ég opnaði myndaalbúmið í símanum og smellti á eina myndina og snéri svo skjánum við til að sýna fólkinu. Þau horfðu, brostu og kinkuðu kolli. Svona eins og fólk gerir. 

Á sama tíma fann ég blóðið hlaupa fram í kynnarnar og hjartað sló aðeins örar. Ég hugsaði með mér: Sjitt! Ég verð að passa mig hver gæti horft yfir öxlina á mér og séð myndaalbúmið. 

Næsta mynd í myndaalbúminu var nefnilega mynd sem var alls ekki ætluð áhorfendum yngri en 18 ára. Réttara sagt, þá var hún ekki ætluð neinum áhorfendum nema þessum eina sem hafði fengið hana senda skömmu eftir að ég tók hana. 

Ég var mjög meðvituð um þessa mynd, enda var hún ósiðleg með öllu. Ég hélt fast utanum símann, eins og einhverjum gæti dottið í hug að hrifsa hann úr höndunum á mér og fara að fletta í gegnum myndaalbúmið mitt. 

Þegar allir voru búnir að horfa fylli sína slökkti ég á skjánum og tilkynnti að ég yrði að fá að hlaupa á klósettið áður en fundurinn myndi byrja. 

Þegar þangað var komið lyfti ég ekki einusinni upp setunni, heldur fór í hvelli í gegnum myndaalbúmið mitt og færði allar ósiðlegar myndir af mér í einka-albúm og eyddi öðrum. Örfáum mínútum seinna sturtaði ég niður, eins og ég hafi sannarlega verið á klósettinu, þvoði mér um hendurnar og fór á fundinn, margfalt léttari. Roðinn farinn úr kynnunum og hjartað sló á eðlilegum hraða. 

Þetta hefði getað farið svo miklu verr.... 

Ummæli

Vinsælar færslur