Hlýðin og tekur við skipunum?
Ég fékk skilaboð með þessum titili um daginn inni á einkamal.is. Í stuttu máli var þar drottnandi maður að leita að undirgefinni konu. Hún átti að vera hlýðin, taka við skipunum, þóknast honum þegar honum hentaði, mátti ekki spyrja spurninga, en hann ætlaði að fara hægt í sakirnar og byggja upp traust, og ef þetta væri eitthvað sem ætti við mann átti maður að svara með útlistunum á eigin reynslu.
Hann var greinilega vel að máli fari og það var eitt og annað sem kitlaði mig við þessi skilaboð. Ég væri alveg til í litlar skipanir daglega og undirbúning fyrir hitting sem gæti tekið marga daga, eins og hann lofaði. Eins skein ákveðni úr skilaboðunum og að maður kæmist ekki upp með neitt kjaftæði. Það fannst mér skemmtileg tilhugsun.
Hinsvegar blöktu rauðu flöggin víða og ég benti honum á það. Hvernig ætlaði hann að byggja upp traust ef ekki mátti spyrja spurninga? Hvernig ætlaði hann að tryggja sálrænt öryggi ef ekki má orða hlutina við hann? Svo bætti ég við að ég hefði yfir 20 ára reynslu, væri búin að fræðast mikið og fræða aðra, og hefði prófað allan fjandann.
Svarið sem ég fékk til baka sló mig:
"Ef èg hefði verið að biðja þig um ævisöguna þína eða hvað þér finndist um mína nálgun þá hefði ég spurt!Ég spurði ekki, er það?Þín skoðun skiptir mig minna en engu máli, þú skiptir mig minna en engu máli. Eina sem þú átt að gera er að þjóna og hlýða því sem þér er sagt."
Þessi klausa sýndi mér svart á hvítu að ég ætti ekki samleið með þessum manni. Ég þarf að finna að ég sé vel metin, að mín sé óskað, að ég skipti máli, miklu máli. Ég var komin með fiðring í puttana að svara í sömu mynt. "Ó.... samt ertu að eyða bæði tíma og orku í að senda skilaboð til mín sem skiptir þig minna en engu máli. Það bendir akkúrat til þess gagnstæða." eða eitthvað á þessa leið, en ég náði að hemja mig.
Í staðinn sendi ég einfaldlega "Takk fyrir svarið. Ég met það mikils."
Sem í rauninni þýddi:
Takk fyrir, að sýna mér hvernig mann þú hefur að geyma, einhver sem slær frá sér þegar honum er bent á það sem mætti betur fara.
Takk fyrir að gera mér það alveg ljóst að sálrænt öryggi mitt skiptir þig engu máli.
Takk fyrir að sýna mér að þú ert svo fastur í fantasíunni að þú getur ekki mætt mér á jafningjagrundvelli.
Ég met það mikils að þú hafir sýnt þessa hlið á þér strax í upphafi, þannig að ég þarf ekki að eyða tíma mínum eða orku í eitthvað sem myndi aldrei ganga fyrir mig.
Elsku kallinn tók þessu svari sem iðrun af minni hendi, og sagði að ég mætti hafa samband ef ég vildi þjóna honum.
Ég benti honum á að við ættum greinilega ekki vel saman, ég með mínar milljón spurningar um allt og ekkert. Ég bætti við að kannski væru einhverjar þarnar úti sem væru til í að ganga blindandi inn í leikinn, en ég væri ekki ein af þeim.
Lesendur góðir! Það ætti engin að vera ein af þeim! Maður gengur ekki blindandi inn í annarra manna fantasíur og horfir algjörlega framhjá sínum eigin þörfum eða löngunum. Sérstaklega ekki ef það má ekki einusinni ræða það!
Eftir þetta sendi hann mér ein skilaboð, þar sem hann ítrekaði að ég væri enn velkomin að þjóna honum, en það þyrfti samt að byrja á því að refsa mér.
Kannski er það draumur einhvers, en að vera refsað fyrir að vera sjálfstæð hugsandi kona sem er ekki tilbúin að láta vaða yfir sig er einfaldlega ekki mitt kink.
Ummæli