Partý
Ég fór í partý um daginn. Klæddi mig upp í mitt fínasta púss, corsett, pils og kloflausar sokkarbuxur meira að segja. Málaði mig og gerði mig fína. Ég var nokkuð ánægð með útkomuna.
Mér finnst alltaf gaman að klæða mig í fetish-gallann og mæta í partý, til að sýna mig og sjá aðra.
Ekki endilega til að leika sjálf, heldur til að dáðst að öllu fólkinu sem er saman komið til þess að njóta þess að vera það sjálft. Hvernig sem það er. Hvort sem það er klætt í latex frá toppi til táar, í leður harness, vel reyrt korsett, eða svo gott sem nakið. Hvort sem það er mætt til að leika sér, kynnast, sýna sig eða sjá aðra.
Það sem einkenndi þetta partý, sem og svo mörg önnur var gleðin sem skein úr andlitum fólksins. Það hjálpaði örugglega til að þetta var 80. RMSSSDLP partýið og afmæliskaka á boðstólum og allt. En ég held samt að gleðin hafi stafað af því að þetta umhverfi fagnaði fjölbreytileikanum í sinni víðustu mynd, frekar en af kökuátinu.
Fyrir þau sem ekki hafa mætt í svona partý, þá eru þetta sannarlega leikpartý, en ekki kynlífs-partý. Fólk mætir í sínum kink- og fetish-göllum, með tækin og tólin, og sumir hverjir taka leik, aðrir ekki. Þegar ég segi að sumir taka leik, þá er það alla jafna ekki kynferðislegur leikur í hefðbundnum skilningi orðsins. Enginn líkamspartur fer inn í líkama annarrar manneskju og enginn engist um í greddu-fróunar-vímu. Leikir ganga alla jafna ekki út á kynferðislega losun, heldur kinkið. Að binda, eða pína á einhvern máta, að notfæra sér valdaójafnvægið þar sem annar drottnar og hinn er undirgefinn.
Ég hitti nefnilega nýliða í partýinu sem viðurkenndi að hafa haldið að partýið væri meira svoleiðis. Svona kynlífs. Ég get alveg skilið það, þegar maður hefur ekki mætt áður og er með einhverjar hugmyndir um það hvernig þetta gengur fyrir sig. Mikið held ég að það gæti verið svekkjandi að vera búinn að gíra sig upp í allskonar sóðalegheit, og komast síðan að því að það er ekkert slíkt á ferðinni.
Ummæli