Öryggisorð
Ég fékk athugasemd við síðustu færslu hjá mér. Mjög góða og réttmæta athugasemd.
Í listanum yfir viðmiðunarspurningar fyrir leik þá gleymdi ég mjög mikilvægum punkti. MJÖG (með hástöfum og allt) mikilvægu atriði.
Það er öryggisorðið.
Í kjölfarið komst ég að því að ég er ekki með neina færslu inni á blogginu mínu sem fjallar bara um það. Þannig að nú verður því breytt. Hér er færsla sem fjallar bara um öryggisorð
.
Hvað er öryggisorð?
Öryggisorð er eitthvað sem er notað til að stoppa leiki þegar eitthvað bjátar á. Oft er stuðst við umferðaljósakerfið þegar öryggisorð eru valin. Grænt = allt er gott, haltu áfram. Gult = þetta fer að nálgast stopp, ef þú heldur áfram á þessari línu. Rautt = leikurinn er stoppaður.
Sum kjósa að hafa ekki umferðaljósakerfið, heldur þýði stopp einfaldlega stopp. Enn önnur finna einhver allt önnur orð og nota sem öryggisorð.
Svo eru það þau sem einhverra hluta vegna geta ekki tjáð sig með orðum þegar þau leika. Hvort sem það er sálrænt, af því að stærðar kefli er í munninum á þeim, eða af því að það heyrist ekkert í gegnum mörg lög af leðurhettum. Þá þarf að finna aðrar leiðir.
Það er til dæmis hægt að láta þann undirgefna halda á hlut, og ef hann sleppir þýðir það að það þarf að stoppa. En það gæti samt farið framhjá þeim drottnandi í hita leiksins.
Undanfarin ár hef ég stuðst við að hrista hausinn. Sá undirgefni hristir þá hausinn þangað til sá drottnandi bregst við því, og leikurinn er pásaður eða jafnvel stoppaður alveg.
Hvernig á að nota öryggisorð?
Það sama ætti að eiga við um notkun öryggisorðs. Það gæti þurft (og ætti) að endurtaka þau aftur og aftur þangað til sá drottnandi bregst við því. Ef reykskynjarinn pípti bara einu sinni og það væri sannarlega kveiknað í, þá er óvíst að ég taki eftir því og kofinn gæti brunnið til kaldra kola.
Ef ég er að leika sem drottnandi aðili, þá þætti mér ömurlegt ef ég heyrði ekki þann undirgefna nota öryggisorð og myndi bara halda áfram leiknum. Fyrir utann þann skaða sem ég gæti valdið! Mig hryllir við tilhugsuninni. Þess vegna finnst mér persónulega best að sá undirgefni hristi höfðuðið. Ég nota augun mun meira en eyrun þegar ég er að drottna. Svo eru önnur einhvernveginn öðruvísi og eitthvað allt annað virkar fyrir þau.
Hvenær á að nota öryggisorðið?
Þetta er vissulega persónuleg spurning fyrir hvern og einn, en svarið mitt er samt alltaf: Fyrr en seinna. Það er vel hægt að breyta, laga, og halda áfram ef það er stoppað í tíma.
Undirgefnum (ég er engin undantekning þar á) hættir til að vilja þóknað sem drottnandi og detta í gírinn að harka af sér, geyma að nota öryggisorðið fyrr en seint og síðarmeir þegar sá drottnandi er kannski komin langt yfir þolmörkin hjá viðkomandi.
Í dag spyr ég mig spurningarinnar: Er ég að njóta þess sem er að gerast? Ef ég er hætt að njóta, þá er leikurinn tilgangslaus og það þarf að stoppa.
Hvað gerist svo?
Ég komst að því fyrir nokkrum árum síðan að þetta er eitthvað sem sannarlega þarf að ræða. Hvað gerist þegar öryggisorðið er svo notað í leik? Hvernig ætlum við að bregðast við því? Hvernig er verklagið?
Þetta er eitthvað sem leikfélagar verða að finna út saman og þetta er samtal sem þarf að eiga sér stað. Er stoppað strax, öll bönd losuð, dótinu pakkað saman og allt búið? Er pásað, böndin losuð (það er alltaf einhver bundinn í dæmunum mínum) og málin rædd áður en tekin er ákvörðun um næstu skref? Er þetta kannski tekið í einhverjum minni skrefum? Er after-care? Hvernig hlúum við hvort að öðru þegar öryggisorðið er notað? Gæti sá drottnandi þurft sérstaka umhyggju eða rými? Er atvikið rætt sérstaklega til að koma í veg fyrir að það gerist aftur?
Sem undirgefin þá vil ég þóknast, gera vel, og gera domminn stoltan af mér. Það getur verið hættuleg blanda fyrir mig. Ég lenti í því ekki alls fyrir löngu að nota öryggisorð, það var stoppað í smástund og tekið stutt spjall um hvað hafi valdið þessu, eftir það vildi domminn halda áfram. Hann spurði leiðandi spurninga, og þar sem ég var enn í undirgefna hugarsástandinu og vildi standa mig og gera vel fyrir hann samþykkti ég að halda áfram. Leikurinn gekk upp en það var tæpt fyrir mig, og ég fann það allan tímann. Ef ég hefði ekki viljað þóknast honum svona mikið hefði ég kannski ekki samþykkt að halda áfram. Þetta atvik varð til þess að ég staldraði við og fannst við þurfa að fínpússa verklagið í kringum öryggisorðið. Kannski myndi ég ekki ráða við áframhaldandi leik næst, og hvað þá?
Æfingin skapar meistarann!
Það getur verið erfitt að nota öryggisorð, svo ég mæli með því að æfa það!
Í alvörunni!
Það eru teknar brunaæfingar í skólum og á vinnustöðum til að undirbúa fólk ef það skildi kvikna í. Þetta er ekkert annað. Góður undirbúningur og æfing áður en það kemur til þess í alvörunni.
Það má vísvitandi flétta notkun öryggisorðsins með skýrum hætti inn í leikinn.
Einn skemmtilegasti og eftirminnilegasti leikur sem ég hef átt gekk út á þetta. "Ég held áfram þangað til þú segir rautt!" Skilaboðin voru skýr og greinileg og ég komst ekki hjá því að nota öryggisorðið oft í þessum leik.
Auðvitað er markmiðið yfirleitt að leika án þess að það þurfi að nota öryggisorð, það er samt nauðsynlegt að það sé til staðar, allir viti hvað það er og hvernig á að bregðast við ef það er notað.
Ummæli