Fjarlægð, fjöll og menn

Fjarlægðin gerir fjöllin blá og mennina mikla, svo er sagt að minnsta kosti. Ég held að það gæti verið eitthvað til í því, sérstaklega eftir að ég hlusta á eitt hlaðvarp um daginn. Í sem skemmstu máli þá fjallaði það um skort. Hvernig skortur birtist og hvaða áhrif skorturinn hefur á heilann. Merkilegt nokk þá hefur skortur jafnan þau áhrif á að maður verði hugfanginn og mjög upptekinn af því sem mann skortir. 

Í den tid var gerð langtímarannsókn þar sem hópur manna undirgekkst í heilt ár að fá ekki nægjanlega mikið að borða. Mennirnir voru markvisst sveltir og það sem þeir fengu að borða náði ekki að anna næringarþörf, eða að minnsta kosti, kaloríuþörf þeirra. Fræðimenn stúderuðu þessa menn og rannsökuðu þá í þaula. Eitt af því sem kom í ljós var að þeir urðu mjög uppteknir af mat. Sumir hverjir ætluðu að fara út í veitingarekstur eftir að rannsókninni lauk. Einhverntíman var þeim boðið í bíó, svona til að dreifa huganum og gera eitthvað skemmtilegt. Myndin var rómantísk ástarsaga. Eftir myndina voru þeir spurðir út úr og í ljós kom að þeir voru uppteknari af matnum sem birtist á skjánum heldur en söguþræðinum. Þeir vildu ekki sjá ástarsenurnar, heldur máltíðirnar. 

Eftir hlustunina varð ég hugsi. Ætli þetta sé tilfellið með fjarsambönd? Í rauninni af því að þetta eru fjarsambönd þá er fólk uppteknara af hinum aðilanum en ella. Fólk upplifir ákveðinn skort, hinn aðilinn er langt í burtu og er ekki fær um að fullnægja þörfum þess. Af því að þessi skortur er fyrir hendi þá verður fólk mun frekar upptekið af hinum aðilanum og sambandinu í heild sinni. 

Ég held að þetta skýri amk að miklu leiti þráhyggju mína fyrir fyrsta kærastanum mínum, þegar ég var 16 ára. Hann bjó hinum meginn á landinu og það komst ekkert annað að hjá mér á þessu tímabili. Vinir mínir eiga skilið medalíur fyrir að hafa umborðið endalaust tal um hann. 

Ummæli

Vinsælar færslur