Meet cute

Hún horfði á hann og allt í einu fann hún hvernig andrúmsloftið breyttist, hvernig líkamar þeirra dróust nánast ómeðvitað hvor að öðrum, hvernig hið óumflýjanlega nálgaðist og allt í einu voru varir hans á hennar. Það var svo auðvelt, svo gott og svo rétt! 

Hversu oft hefur maður ekki lesið um þessi atvik í sögum eða séð þau gerast á skjánum. Ég lifi suma daga á þessum bleiku bókum, þar sem aðal söguheitjan finnur sig óvart lostna hrifningu á ólíklegasta staðnum, með karakternum sem hún byrjaði bókina á að fyrirlíta. 

Þangað til um daginn hélt ég að þetta gerðist ekki í alvörunni, að minnsta kosti ekki fyrir mig! Þarna þurfti ég að éta hattinn minn, því við eldhúsborðið heima hjá mér fann ég hvernig eitthvað innra með mér kviknaði í samskiptum við nágranna minn. Fyrst þegar ég barði hann augum var hann skítugur upp fyrir haus, það var klárlega kominn tími á klippingu og rakstur, en það fór ekki á milli mála að þarna var skemmtilegur karakter á ferð, þið vitið, þessi sem lætur allt flakka á góðlegan máta og laðar fram bros hjá fólkinu í kringum sig.
Þegar ég opnaði dyrnar þennan dag ætlaði ég ekki að þekkja hann, hann var ný klipptur og hafði greinilega splæst í skeggsnyrtingu líka, mættur til að hjálpa mér með uppþvottavélina.
Hann stoppaði svo í kaffi hjá mér og við vorum að spjalla um daginn og veginn þegar það gerðist eitthvað, alveg óvart! 
Hugur minn fór að velta því fyrir sér hvernig væri að renna fingrunum í gegnum þykkt hárið, hvernig húðin hans væri undir fingurgómum mínum og hversu dásamlegt það væri að kanna þessar varir í návígi. Hann kvartaði eitthvað um bakverk og þeirri hugmynd skaut upp að ég gæti boðist til að nudda hann. Ég fæ alla jafna ekki þá löngun að nudda svo til ókunnugt fólk. Það eru aðrir sem gera það, þeir ganga á milli manna í partýjum og allir sem það vilja fá notalegt herðanudd. Það er ekki ég! Mér líður vel með tveggja metra reglunni, svo þessi hugmynd kom mér verulega á óvart. Þarna fann ég að ég þurfti að passa mig í kringum hann, ég þurfti að vanda mig svo þessi vandræðalega hrifning skini ekki í gegn. Síðast en ekki síst: ég þurfti að finna leið út úr þessu, því þetta eru óviðeigandi og mjög svo óvelkomnar tilfinningar. Ég kenni hormónunum um! Gefum þessu viku eða þrjár og sjáum hvort þetta líði ekki hjá. 

Ummæli

Vinsælar færslur