Sítt hár, eða stutt?

Ég á góða vinkonu. Við erum búnar að þekkjast alla okkar ævi og hún er frábær í alla staði. Hún er líka sæt. Sæt á þennan sameiginlega samfélags mælikvarða sem við búum við. Það hjálpar ekki til að hún fékk sér sílíkon í brjóstin fyrir einhverjum árum síðan, svo hún er bæði sæt og sexý. Hún hefur verið dugleg að fara út á lífið, kíkja niður í bæ, hitta fólk og hafa gaman. Hún er líka málefnaleg, djúp og finnst gaman að ræða hlutina, fá annarra manna sjónarmið og pæla.

Þessi ágæta vinkona mín hefur oft kvartað undan karlmönnum við mig. Hún hefur kvartað undan því að geta ekki átt strákavini því þeir vilja allir eitthvað meira á endanum, hún hefur kvartað undan því að fá ekki að skemmta sér í friði án þess að fá augnagotur og áreitni. Hún hefur líka talað um að oft á tíðum sé hreinlega ekki hlustað á hana. Hún er kannski að tala um sína sýn á lífinu og í stað þess að hafa eitthvað um málefnið að segja segir sá sem hún er að tala við "mikið ertu með girnilegar varir...." (eða eitthvað álíka). Henni gremst þetta óskaplega og ég skil það vel. 

Nema hvað, þessari vinkonu minni tókst
að eyðileggja síða og fallegar hárið á sér með því að lita það, og aflitla það, og lita það svo aftur og eitthvað fleira í þessum dúr. Hárið á henni varð einfaldlega ónýtt! Hún brá því á það ráð að snoða sig og byrja alveg upp á nýtt. Hár hefur þann dásamlega eiginleika að vaxa, svo það kom ekki að sök til lengri tíma. 

Stuttu eftir þetta atvik þá hringir hún í mig og ég hef sjaldan heyrt í henni svona uppveðraðri. Hún hafði skellt sér út á lífið kvöldinu áður, og viti menn! Það var ekki reynt við hana hvar sem hún fór, það var ekki klipið í rassinn á henni, það kom ekki einhver ókunnugur og tróð sér inn í hópinn til þeirra til að ná athygli hennar, hún fékk að skemmta sér í friði! Það sem meira var; það var hlustað á hana! Hlustað til að leggja eitthvað til málanna en ekki til að dáðst að útliti hennar. Hún hafði aldrei upplifað þetta svona áður, og eina breytingin sem hún gerði var að klippa hárið á sér. 

Við veltum því fyrir okkur hvort að þetta væri raunin, að hárið skipti svona miklu máli. Ég lendi aldrei í þessari áreitni sem hún talar um. Ég er líka ekki jafn sæt og sexý og hún út á við (sé litið til þessara samfélagslegu staðla) þó svo að ég sé talsvert djarfari og ævintýragjarnari þegar í bólið er komið.

Ég nefndi þetta í vinnunni minni og á meðan sumar könnuðust vel við þessa áreitni, þá var ein sem hafði aldrei lent í svoleiðis löguðu. Hún var líka stutthærð og búin að vera það mest allt sitt líf. 

Mig langar að kasta þessari vangaveltu til ykkar, kæru lesendur, og spyr: Hvað er í gangi þarna? Afhverju er sítt hár meira aðlaðandi? Hvað liggur þar á bakvið?

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Ein pæling er að sítt hár sé merki um lausa, ekki í sambandi, og jafnvel-að-leita stelpu, meðan stutta hárið er meira svona "ég er í sambandi, jafnvel komin með krakka, farðu í burtu".

En ég veit ekki, þetta er bara kenning, svo langt sem hún nær....
Prinsessan sagði…
Já, góð spurning.
Ég hef líka heyrt þá kenningu að stutta hárið sé merki um meira sjálfsöryggi og að konan sé óhrædd við að fara eigin leiðir. Aðrir hafa bent á að stutt hár gæti verið merki um samkynhneigð kvenna. Annars veit ég þetta ekki.

Kannski ég ætti að fá mér hárkollu og kanna hvort það verði reynt meira við mig?

Vinsælar færslur