Fortíðin bankaði upp á
Það var eins og ég hefði verið kýld í magann. Steingrá augu hans horfðu ákveðið á mig í gegnum skjáinn og það hafði meiri áhrif á mig en mig langaði að viðurkenna. Ég hafði hálfpartinn búist við þessu þegar ég bjó fyrst til aðganginn minn á Tinder en ég var samt enganveginn viðbúin.
Ég skoðaði myndina í bak og fyrir, vitandi að þetta væri eina skiptið sem ég myndi sjá þennan prófíl. Fyrsta ástin mín, fyrsta stóra skotið, maðurinn sem tók meydóm minn. Maðurinn sem hafði tekið meira rými í huga mínu og hjarta en nokkur annar. Ung og ástfangin hafði ég viljað gera allt til að sanna mig og sýna gangvart honum, að ég væri jafningi, jafn þroskuð og áhugaverð og mér fannst hann vera, og verðug tíma hans, athygli og ástar.
Vá hvað ég var ung og vitlaus þá! Ég var drukkin af ást og hegðaði mér kjánalega í barnalegu viðmóti mínu til að sanna mig fyrir honum. Það varð til þess að ég særði hann hrikalega djúpt og hann sleit sambandinu eftir þá örfáu mánuði þar sem við vorum formlega kærustupar. Ég var í sárum mjög lengi á eftir. Þegar ég sá hann á förnum vegi fékk ég í magann, leið illa og forðaði mér úr aðstæðunum ef ég gat. Það var of sárt að mæta honum, að horfa upp á manninn sem ég þráði svo heitt, en sem hafði hafnað mér.
Þarna var hann samt. Greinilega einhleypur í leit að góðum félagsskap. Myndarlegur á sinn eigin hátt. Með prófíl sem ég hefði algjörlega heillast að, öll réttu orðin, allt rétta viðmótið. Ég hefði ekki hugsað mig um tvisvar ef við ættum ekki okkar sögu. Ég vissi það líka að vegna okkar sögu myndi hann blokka mig um leið og hann sæi prófílinn minn, eins og hann virðist hafa gert á öllum samfélagsmiðlum.
Nokkru áður hafði ég séð hann bæði í sjónvarpi og heyrt í honum í útvarpi. Þá hafði ég horft og hlustað og skilið sjálfa mig, rúmum tuttugu árum fyrr, svo afskaplega vel. Hann var heillandi, svo ástríðufullur fyrir því sem hann var að gera, húmorískur, með fallegt strákslegt bros og fullur virðingu gagnvart náunganum.
Ef ég mætti einhverju breyta við líf mitt, þá væri það ég að ég hefði aldrei sært hann eins og ég gerði.
Ummæli