Í sundi

Þetta atvik var draumkennt og mér leið eins og ég væri aðalgellan í bíómynd. Það eina sem vantaði var að þetta hefði gerst í hægagangi. Ég sat í heita pottinum í sundi. Potturinn er þannig staðsettur að ef maður situr á móti stiganum þá hefur maður útsýni yfir megnið af sundlaugasvæðinu. 

Ég var búin að sitja þar lengi, og láta hugann reika. Hann fer þá oft á kynferðislegar brautir sem er ekki verra. Nema hvað, þar sem ég sat þarna kemur myndarlegur maður labbandi yfir sundlaugarsvæðið. Hann var passlega stæltur og mætti greinilega reglulega í ræktina, frekar sólbrúnn, með smá skeggbrodda og í dökkblárri sundskýlu. Hann hefði getað verið módel að leika í sundfataauglýsingu. 

Hann gekk ákveðnum en hægum skrefum í áttina að pottinum. Beint í áttina að mér. Hann virtist horfa á mig á meðan hann labbaði í áttina að pottinum og ég fékk það á tilfinninguna að hann tæki mig út, og líkaði það sem hann sá. Ég varð svolítið djörf og horfði bara á hann á móti, og naut þess að fylgjast með yfirveguðum og fáguðum hreyfingum hans. Hjartað sló örar eftir því sem hann kom nær, og ég velti því fyrir mér hvort þetta væri að gerast í alvörunni. 

Rétt áður en hann kom að pottinum þá beygði hann af leið og gekk að barnalauginni. Fljótlega sá ég baksvipinn á honum ásamt barni á leiðinni upp úr lauginni. Baksvipurinn var ekki síðri en framhliðin ef satt best skal segja. 

Jæja... Þannig fór um sjóferð þá, en ég skal ekki neita því að ég naut þess á meðan á því stóð. 

Ummæli

Vinsælar færslur