Tónleikahlé

Ég horfði á hendur hans liggja á stólbakinu fyrir aftan hana. Hann strauk létt yfir bakið á henni og vafði svo einum af löngu lokkum hennar um fingur sér og togaði svolítið í hann, sjálfsagt ekki mjög fast, en nógu fast til að ég sæi það. Ég held ekki að það hafi hvarflað að honum að einhver væri að fylgjast með þessu athæfi. 

Þau sátu þarna þrjú, hann, konan og svo vinstra megin við konuna var annar maður. Þau virtust vera í hróka samræðum í hléinu á tónleikunum og konan lét sem ekkert væri þó hann togaði svona í hárið á henni. Þau tvö voru greinilega par, en ég velti því fyrir mér hvort þetta væri bara sýnishorn af því sem þeim færi á milli í einrúmi. Hvort þetta væri forsmekkurinn, eða upphitun fyrir heitari leiki þegar heim kæmi?

Kannski.... 

Kannski var þetta bara sóða hugur minn að ímynda sér hluti um bláókunnugt fólk, sem kannski var svo enginn fótur fyrir í alvörunni. Engu að síður þá skemmti ég mér ágætlega við að velta þessu fyrir mér. Það er líka ekki laust við að ég hafi öfundað hana örlítið af þessari athygli sem hann sýndi henni á tónleikunum. 

Ummæli

Vinsælar færslur