Dásamlegu kinkverjar
Ég fór í parý á helginni sem leið. Kink-partý. Ég nýt mín alltaf í þessum partýjum og þetta partý var engin undantekning þar á.
Ég elska að klæða mig upp, gera mig sæta og mæta, til að sýna mig og sjá aðra.
Ég elska að sjá gömul andlit og ný í þessum partýjum. Sjá hvernig senan er síbreytileg, þó svo maður sjái oft sama fólkið aftur og aftur. Að sjá hvernig straumarnir fara í gegnum hana. Hvernig sum áhöld eru meira "inn" en önnur á hverjum tíma.
Ég elska að horfa á aðra leika, að sjá hvernig brosin leika við varir þeirra eða glottin sem gefa til kynna einhver djöfulleg áform. Að horfa á fólk njóta þess að engjast um, eða njóta þess að pína aðra.
Ég elska að drekka í mig stemminguna! Þar sem fólk fær að vera bara eins og það er. Hvort sem við erum að tala um loðbolta eða latex-hund, fáklædda dómínu í háum hælum eða gimp í mörgum lögum af leðri. Það má!! Og ég elska það!
Í síðasta partýi var fólk að æfa bindingar. Maður var að binda konu. Þegar ég fór að fylgjast með þeim var hún þegar vel bundin með allskonar hnúta og fínerí. Hendurnar voru bundnar fyrir aftan bak og fæturnir þannig að hún var hálf bjargarlaus. Maðurinn hélt áfram að binda hana, laga bindinguna, bæta við eða breyta. Ef satt best skal segja var ég ekki mikið að fylgjast með því. Ég var að fylgjast með þeim! Hvernig hann horfði á hana. Hvernig hún brosti til hans. Þegar hann tók í bandið sem lá á milli brjósta hennar og ýtti henni aftur á bak, þannig að hún lagðist svo gott sem í gólfið, og togaði hana aftur upp. Hvernig hún lygndi aftur augunum. Hvernig hann virtist lesa hana. Hvað þau nutu sín þarna, á gólfinu, mitt á meðal perralinga sem voru í spjalli um daginn og veginn. Athygli mín dróst að þeim aftur og aftur. Þau voru þarna í sínum eigin heima, bara að njóta hvers annars. Það var ótrúlega æsandi að fylgjast með þeim.
Hvernig þau voru að njóta sín í bindingunum kallaði fram löngun hjá mér í slíkt hið sama. Þannig að ég varð mjög glöð þegar ég sá auglýsingu nokkrum dögum seinna um shibari vinnustofu sem er komin á dagskrá hjá BDSM á Íslandi.
Ég stefni á að mæta, og er næstum farin að telja niður dagana.
Ummæli