Uppgjör
Endur fyrir löngu, þegar ég var að byrja mitt kink, þá var ég með leikfélaga. Svona eins og kinkverjar gera jafnan. Ég er gríðarlega þakklát fyrir þennan leikfélaga. Ég er gríðarlega þakklát fyrir því að hafa fengið að byrja þarna, með honum. Það eru ekki bara allir dásamlegu leikirnir sem við áttum, heldur líka allt hitt, allt í kringum leikina. Hann lagði grunninn að því hvernig ég stunda mitt kink í dag, 20 árum seinna. Það var fastur liður hjá okkur að taka spjall svona tveimur dögum eftir leik. Einskonar uppgjör á leiknum. Það er eitt af því dýrmætasta sem ég tók með mér frá þessum leikfélaga. Við ræddum hvað gekk vel, hvernig við fíluðum hitt eða þetta, hvað mætti fara betur og hvort það væri eitthvað sem við vildum gera aftur eða meira af. Þetta spjall gerði það að verkum að við lærðum meira hvort á annað, hvað við fíluðum og í hvaða átt við vildum fara með leikina. En ég lærði líka að staldra við og meta leikina eftirá, kafa dýpra ofaní þá og uppskera þeim mun meira. ...